Bæjar­ráð Reykja­nes­bæjar hefur sam­þykkt breytingar á fjár­festingar­á­ætlun bæjar­fé­lagsins fyrir árið 2020. Breytingarnar felast í því að mann­afla­frek verk­efni eru sett í for­gang og dregið úr öðrum sem ekki hafa jafn mikil já­kvæð á­hrif á at­vinnu­markað. Jafn­framt hefur bæjar­stjóra verið falið að gera við­auka við fjár­hags­á­ætlun ársins til þess að auka fram­kvæmdir um 460 miljónir króna, þannig að heildar á­ætlunin verði 1.160 milljónir króna. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá Reykja­nes­bæ.

Þá stendur Reykja­nes­bær í fram­kvæmdum við Stapa­skóla upp á 2 milljarða króna, hönnun nýs hjúkrunar­heimilis fyrir 70 miljónir. Þannig saman­lagt mun Reykja­nes­bær því fram­kvæma fyrir rúma 3,2 milljarða á árinu.

„Þessar breytingar eru liður í við­brögðum bæjar­fé­lagsins við þeim efna­hags­legu á­föllum sem nú ganga yfir. Við­brögðin miðast við að fjölga störfum eins og hægt er, með það að mark­miði að draga úr at­vinnu­leysi og ekki síður að vernda önnur störf í at­vinnu­lífi svæðisins. Ljóst er að meira þarf til og munu frekari við­brögð koma fram á næstu vikum. Búist er við að at­vinnu­leysi í Reykja­nes­bæ muni verða yfir 24% í apríl,“ segir í til­kynningunni.

„Tækifærin til framtíðar eru mjög mikil“

Í til­kynningunni segir enn fremur að þó staðan í Reykja­nes­bæ er svört núna og erfiðir tímar eru framundan, má það ekki gleymast að á­stæðan fyrir því að svæðið verður þetta illa úti er sú að flug­völlurinn tengir Reykja­nes­bæ með beinum hætti við al­þjóð­legt efna­hags­líf.

„Það þýðir jafn­framt að tæki­færin til fram­tíðar eru mjög mikil og það er ekkert sem bendir til þess að þessi sam­dráttur verði varan­legur. Co­vid mun ekki breyta legu landsins, mitt á milli tveggja heims­álfa. Kefla­víkur­flug­völlur verður á­fram tengi­punktur í flugi á leið yfir At­lants­hafið, með mikla mögu­leika til frekari þróunar, þar á meðal með beinu flugi til Asíu.“

Í sam­hljóma bókun bæjar­stjórnar frá fjar­fundi hennar í gær segir:

„Bæjar­stjórn Reykja­nes­bæjar fagnar þeim al­mennu að­gerðum sem nú þegar hefur verið ráðist í en krefst þess að sér­stak­lega sé tekið til­lit til þeirra svæða á Ís­landi sem verst verða úti. Bæjar­stjórn mun gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að standa vörð um vel­ferð íbúa í gegnum þá erfið­leika sem við stöndum frammi fyrir sem sam­fé­lag.“