Endur­hæfingar­stofnunin Reykja­lundur mun tíma­bundið taka á móti sjúk­lingum frá Land­spítala í ljósi gríðar­legs á­lags sem er á spítalanum um þessar mundir vegna fjölda smita. Mark­mið samningsins er að auð­velda út­skrift af Land­spítala í tengslum við Co­vid-far­aldurinn.

Í til­kynningu frá fram­kvæmda­stjórn Reykja­lundar segir að breyting hafi verið gerð tíma­bundið á aðal­samningi um þver­fag­lega endur­hæfingu og tengjast þær breytingar sólar­hrings­deild Reykja­lundar í Mið­garði.

„Mið­garður er deild með 12-14 rúm fyrir ein­stak­linga sem þurfa hjúkrun allan sólar­hringinn sam­hliða þver­fag­legri endur­hæfingu. Deildin verður nú nýtt fyrir sjúk­linga sem flytjast beint frá Land­spítala og fyrir­sjáan­legt er að þurfi inn­lögn í sólar­hrings­þjónustu í allt að 6 vikur,“ segir í til­kynningunni.

Takmörkuð áhrif á starfsemi

Breytingin tekur strax gildi og gildir til 28. febrúar 2022. „Sér­stök inn­lagnar­nefnd, skipuð aðilum frá Reykja­lundi og Land­spítala, mun sjá um inn­töku sjúk­linga á Mið­garð á Reykja­lundi í sam­ræmi við verk­lags­reglur þar um,“ segir í til­kynningunni.

Í ljósi þessa verður tíma­bundið dregið úr hefð­bundnum inn­lögnum með­ferðar­teyma Reykja­lundar inn á Mið­garð en vonast er til að það hafi sem minnst á­hrif þar sem inn­lagnir hafa þegar verið tak­markaðar vegna far­aldursins. Að öðru leiti ættu breytingarnar að trufla starf­semi Reykja­lundar sem minnst.

„Starfs­fólk Mið­garðs og aðrir starfs­menn Reykja­lundar, sem að þessu verk­efni koma, eiga miklar þakkir skyldar fyrir sitt fram­lag. Við í fram­kvæmda­stjórn Reykja­lundar erum sann­færð um að starfs­fólk Reykja­lundar leysir þetta verk­efni með sóma og sendum bestur kveðjur til starfs­fólks Land­spítala.“