Í myndbandi sem Einar Sverrisson deildi á Facebook-síðu sinni sést reykur stíga upp frá jörðinni norðaustan við Keili. „Það er nú eins og að það séu einhverjar líkur á því að hér sé að fara að gjósa,“ segir Einar í myndbandinu.

Skjálftahrina hófst við Keili á mánudaginn. Síðan þá hafa sex skjálftar að stærð 3,0 mælst á svæðinu, nú síðast klukkan 22:10 í gærkvöldi. Vísindaráð hefur varað fólk við því að vera á ferð í grennd við Keili. Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands, sagðist vera að bíða eftir frekari gögnum sem kynnu að skýra hvort kvika sé í þann mund að brjótast upp á yfirborð nærri fjallinu.

„Þetta er ekki sunnan við Keili, heldur norðan við hann,“ sagði Einar við Fréttablaðið. „Þetta er við þar sem menn keyra og stoppa og ganga síðan inn í Bláfellsgjána. Þar sem ég tek myndbandið erum við að koma upp úr nyrðri endanum á Bláfellsgjánni og erum bara að labba þangað sem við skildum mótorhjólin eftir.“