Fjórir þingmenn Miðflokksins, þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason, Anna Kolbrún Árnadóttir og Gunnar Bragi Sveinsson hafa öll ráðið sér lögmann sem sendi Persónuvernd erindi um upptökur af þingmönnunum frá því á drykkjusamsæti þeirra á Klaustur Bar frá því í lok nóvember, að því er RÚV greinir frá.

Þetta staðfestir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar en hún segir jafnframt eðlilegt að stofnunin taki afstöðu til upptökunnar frá Klaustur Bar. 

Í erindi lögmannsins er þess krafist að Persónuvernd taki til rannsóknar hver hafi staðið að þeirri hljóðupptöku sem átti sér stað þriðjudaginn 20. nóvember síðastliðinn. Líkt og fram hefur komið sendi Bára Halldórsdóttir, uppljóstrarinn á Klaustur Bar, Alþingi upptökurnar í dag. 

Persónuvernd hefur borist fjögur erindi frá almenningi þar sem spurt er hvort persónuvernd ætli sér að beita sér í málinu eða gera almennar athugasemdir um umræðuna. Í samtali við RÚV segir Helga að ekki sé komið á hreint hvort Persónuvernd taki upptökuna formlega fyrir en það verði rætt á stjórnarfundi í lok næstu viku. „Það er eðlilega ákveðin ákvæði í persónuverndarlögum sem gætu verið til skoðunar.“