Þau ríki Bandaríkjanna þar sem Repúblikanar eru við völd, ýmist á þingi, í ríkisstjórabústaðnum eða hvort tveggja, hafa það sem af er ári keppst við að setja ný og hert lög um þungunarrof. „Þetta er eitt öflugasta árið í manna minnum,“ hafði The New York Times eftir Steven Aden, lögmanni samtakanna Americans United for Life, er berjast gegn þungunarrofi þar í landi.

Missouri er nýjasta ríkið til þess að bætast í hópinn. Öldungadeild ríkisþingsins samþykkti í vikunni að þungunarrof yrði gert ólöglegt eftir áttundu viku meðgöngu og eru þunganir sem komu til við nauðgun eða sifjaspell ekki undanskildar. Málið hefur hins vegar ekki verið afgreitt úr fulltrúadeild og ríkisstjóri því ekki skrifað undir.

Á meðal annarra ríkja sem hafa hert löggjöfina eru Georgía, Mississippi, Kentucky og Ohio en þau hafa bannað þungunarrof um leið og hægt er að greina hjartslátt fósturs. Hann getur greinst afar snemma á meðgöngu, svo snemma að sögn andstæðinga löggjafarinnar að ólíklegt er að viðkomandi viti af óléttunni. Ekkert ríki hefur gengið jafnlangt og Alabama sem hefur lagt blátt bann við þungunarrofi nema óléttan sé lífshættuleg. Frumvörp annarrar hvorrar gerðar eru enn til umræðu í nokkrum ríkjum til viðbótar.

Ástæðuna fyrir þessari þróun má líklegast rekja til þess að frá því að Donald Trump tók við embætti Bandaríkjaforseta hefur hann fengið tvo íhaldssama dómara í hæstarétt og eru íhaldsmenn því með skýran meirihluta við dómstólinn.

Hæstiréttur dæmdi svo árið 1973 í máli Roe gegn Wade að einstaklingar hefðu stjórnarskrárvarinn rétt til þungunarrofs þar til fóstur telst lífvænlegt. Með því að setja löggjöf sem stangast á við það fordæmi vonast íhaldsmenn til þess að hæstiréttur taki málið upp og hinn íhaldssami meirihluti snúi dómnum við.

Ekki er víst að þessi ósk verði að veruleika. Að mati skýranda The New York Times er líklegt að neðri dómstig felli bönnin úr gildi og þá er alls óvíst að hæstiréttur samþykki að taka málið fyrir.