Margrét Dóróthea Sigfúsdóttir hefur verið skólastjóri Hússtjórnarskóla Reykjavíkur í tuttugu ár. Þar er handverk, hannyrðir og heimilisstörf höfð í hávegum. Margrét kann því aldeilis réttu handtökin við að strauja. Og í kennslumyndbandinu hér að neðan er að finna ótal mörg hollráð sem öllum er gott að kunna.

„Maður hefur nú heyrt um fólk sem straujar bara framhliðina og getur svo bara ekki farið úr jakkanum, er að kafna úr hita en getur ekki farið úr því skyrtan er svo drusluleg,“ segir Margrét meðal annars.

Þá bendir hún fólk á að vera ekki að hjakkast á straujárninu. „Engan æsing með straujárnið,“ brýnir hún um fyrir lesendum.

Nokkur atriði eru mikilvæg að mati Margrétar og eru ávísun á góðan árangur.

„Það borgar sig ekki að hafa flíkina þurra. Það er miklu betra að hafa flíkina raka. Það er til dæmis hægt að úða á skyrtuna, setja hana í plastpoka og strauja hana svo svolítið seinna. Þá er hún öll jöfn rök. Fólk verði líka að gæta að því úr hvaða efni flíkin er áður en það hefst handa. „Ef flíkin er úr nælonefni og hún straujuð á of háum hita gæti komið gat á flíkina.“