Margir halda í þá hefð að setja saman piparkökuhús fyrir jólin enda gaman að skreyta þau og ekki síðra að borða þau eftir hátíðarnar. Mörgum vex þó í augum að meðhöndla heitan, bráðinn sykur og sumum mistekst ætlunarverkið og þurfa að hylja ansi mörg byggingarmistök með skrauti og sælgæti.Bakarinn landskunni Jói Fel fékk það verkefni í vikunni að setja saman piparkökuhús til að sýna réttu handtökin því leyndarmálið felst í því að bræða sykurinn með réttum hætti og ganga skipulega til verks.

Til að byrja með mælir Jói með því að hafa smjörpappír undir á meðan húsið er límt saman og athuga hvort allar hliðir mátist vel saman. Það sé frekar leiðinlegt að líma saman vitlausa hluta hússins. Þakplötu í stað húsveggs til dæmis.

„Sykurbráðin getur orðið mjög heit svo það þarf að fara varlega,“ brýnir Jói fyrir lesendum. „Sykurinn er bræddur á pönnu en ekki í potti og sykurbráðin borin á og hliðunum haldið saman í smá stund. Um leið og sykurinn byrjar að bráðna lækkum við hitann svo hann brenni ekki.Ef að við erum með pönnuna á hellu þá er gott að draga hana til, aðeins út fyrir helluna að hluta, þannig að það sé auðveldara að kæla sykurinn. Ef að sykurinn verður of heitur þá er hann líka snöggur að kólna og fer í þræði eins og margir kannast við. Verður eiginlega bara alveg óviðráðanlegur,“ segir Jói og segir best að dýfa hliðum hússins í sykurinn á pönnunni og bera þær svo að húsinu.