Páll Magnússon, þingmaður Suðurkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn og fyrrverandi útvarpsstjóri er alvanur því að hnýta bindishnút. Og er ekki lengi að því enda hefur hann þurft að binda þá marga á ferli sínum í sjónvarpi.

„Ég lærði af þeim besta, Sævari Karli Ólasyni, sem rak hér í Reykjavík bestu herrafataverslun í Evrópu. Hann kenndi mér að gera þetta almennilega. Ég hnýti alltaf einfaldan Windsor og það eru nokkrar grunnreglur sem er gott að hafa í huga,“ segir Páll og heldur áfram.

„Síddin á bindinu þarf að vera þannig að það endi akkúrat á beltissylgjunni. Það má ekki vera yfir henni þegar maður stendur uppréttur og ekki undir henni heldur. Annað sem er gott að hafa í huga er að nota ekki mynstrað bindi við marglita skyrtu. Mynstruð bindi geta hreinlega virst loga í sjónvarpsútsendingu,“ minnir hann á.

Kennslumyndband af Páli þar sem hann sýnir réttu handtökin er að finna hér fyrir neðan. Fleiri kennslumyndbönd í tengdum fréttum neðst í greininni.