Njáll Gunnlaugsson ökukennari kennir lesendum réttu handtökin við að bakka í stæði. Nokkuð sem vefst fyrir ansi mörgum. Hér fyrir neðan er að finna stutt kennslumyndband sem lesendur geta leikið eftir.

„Aðferðin sem ég nota er einföld. Best er að stöðva bílinn með afturhjólin við hliðina á afturenda bílsins sem leggja á aftan við. Þvínæst er lagt á stýrið alla leið og bakkað þar til að maður sér í hliðarspegli ökumannsmegin, í hægra framljós bílsins sem lagt er framan við. Þá leggur maður alveg á hann í hina áttina og bakkar þar til að hann leggst réttur í stæðið.

Bílar eru mislangir og útsýni úr þeim bæði gott og slæmt og því þarf að áætla hvort að bíllinn passi í stæðið eða ekki og gæta sérstaklega að framhorninu. Með því að flestir nýir bílar í dag eru búnir bakkmyndavélum eða fjarlægðarskynjurum auðveldar það til muna að bakka upp að bílnum fyrir aftan. Eins er gott að stoppa í smástund meðan að lagt er á stýrið í seinna skiptið. Sumir bílar eru jafnvel með meira en þrjá hringi á stýri borð í borð og það tekur smástund að leggja á það alla leið.

Nú er það ekki alltaf sem þetta er kennt í dag, þótt kennt sé að bakka og einnig bakka inn í venjulegt bílastæði. Í raun og veru er samt auðveldara að kenna þetta þar sem notast má við ofantalda viðmiðunarpunkta og ég hef aldrei lent í því að nemandi nái þessu ekki,“ segir Njáll.