Kristín Gunnlaugsdóttir, prjónakona hjá Handprjónasambandinu, kann réttu og öruggu handtökin við að stoppa í sokka. „Það þarf að eiga stoppunál. Sú nál er með ágætlega stóru gati og ekki með oddi. Og svo þarf bara að eiga garn eða spotta og þolinmæði,“ segir Kristín.

Hún segir að ungt fólk þyrfti nauðsynlega að kunna að gera við gæðafatnað og ullarflíkur. Ofneysla á fatnaði í heiminum geri slíka kunnáttu þarfa. Það sé algjör synd að henda götóttum gæðaflíkum og kaupa nýtt. Það auki á neyslu.

„Það ætti alls ekki að henda góðum og fallegum sokkum af því það er komið á þá gat því það er mjög létt verk að gera við þá. Meira að segja krakkar geta stoppað í sokka og þeim finnst það meira að segja flestum mjög skemmtilegt. Sérstaklega ef þeir fá að nota marglitt garn og gera sokkana svolítið litríka og sérstaka,“ segir Kristín og segir fyrirtaks hugmynd fyrir foreldra að finna til götóttan sokk og setjast niður með börnum sínum og kenna þeim listina að stoppa í sokka.