Þekking á skyndihjálp getur bjargað lífi. Guðbjörg Helga Jónsdóttir, verkefnastjóri skyndihjálpar, sýnir réttu handtökin við að framkvæma endurlífgun.

Útbreiðsla skyndihjálpar hefur verið eitt af meginverkefnum Rauða krossins á Íslandi í um 80 ár. Allt frá stofnun hreyfingarinnar í Genf árið 1863 hefur verið lögð áhersla á skyndihjálp hjá landsfélögum Rauða krossins um allan heim.

„Ef við komum að meðvitundarlausum manni úti á götu þá viljum við fyrst athuga hvort hann svari okkur,“ útskýrir Guðbjörg Helga. Þá sé hægt að klappa viðkomandi og biðja hann um að svara. Því næst væri hægt að athuga hvort hann bregðist við sársauka. Þá sé t.d. hægt að þrýsta hnúum niður á bringubeinið. Ef hann sýnir engin viðbrögð og er algjörlega meðvitundarlaus þá á næst að hringja í 112 og framkvæma endurlífgun með símann stillt á hátalarastillingu.

Guðbjörg Helga sýnir hér blástursaðferð og réttu handtökin við hjartahnoð.

Á vef Rauða krossins er að hægt að kynna sér nánar um endurlífgun og skyndihjálp. Þetta skaltu gera ef einstaklingur er meðvitundarlaus og bregst ekki við áreiti.

  • Hallaðu höfði einstaklingsins varlega aftur. Horfðu og hlustaðu eftir því hvort hann andar eðlilega?
  • Horfðu á hvort brjóstkassinn rís og hnígur og gáðu hvort þú finnir andardrátt á vanga þínum.
  • Ef þú finnur ekki andardrátt skaltu byrja endurlífgun með hjartahnoði

Hringdu strax í Neyðarlínuna 112

Byrjaðu hjartahnoð

  • Krjúptu við hlið einstaklingsins. Leggðu þykkhönd annarrar handar á miðjan brjóstkassann. Leggðu þykkhönd hinnar handarinnar ofan á þá fyrri og læstu fingrunum saman. Gættu þess að að axlirnar séu beint yfir hnoðstað.
  • Þrýstu kröftuglega beint niður á miðjan brjóstkassann, á ekki minni hraða en 100 hnoð á mínútu. Léttu öllum þrýstingi af brjóstkassanum áður en þú þrýstir aftur niður
  • Haltu áfram að endurlífga þar til hjálp berst. Ef einhver annar er á staðnum skuluð þið skiptast á að hnoða á um tveggja mínútna fresti, án þess að gera hlé á hnoðinu.

Hægt er að kynna sér skyndihjálp og skrá sig í námskeið hjá Rauða krossinum hér. Einnig býður Rauði krossinn upp á vefnámskeið sem tekur 2 til 3 tíma.

Fréttablaðið/Anton Brink