„Nýir og nýlegir bílar eru með ýmsum flóknum tölvu- og rafeindabúnaði sem getur verið viðkvæmur fyrir snöggum breytingum á spennu í rafkerfinu. Þessvegna er það mikilvægt að þegar gefa á bíl með tóman rafgeymi startstraum með startköplum milli bíla að tengja kaplana milli þeirra í réttri röð,“ segir Hjörtur og gefur leiðbeiningar um hvernig það megi gefa start þannig að ekki verði hætta á skemmdum sem kostað geta stórfé að lagfæra.

Mikilvægt:

  1. Þegar startkaplar eru tengdir milli bíla og annar bíllinn er með fullhlaðinn rafgeymi en hinn með tóman, neistar á milli þegar 4. og síðasta kapalklemman er. Á því augnabliki sem neistinn myndast getur orðið allt að 3000 volta yfirspenna sem er stórháskaleg fyrir rafeindabúnað bílsins.


2. Áður en startkaplarnir eru tengdir er í öryggisskyni skynsamlegt að fjarlægja lyklana úr kveikilásum beggja bílanna til að öruggt sé að ekki sé svissað á og kveikikerfi þeirra þar með örugglega ekki „opin.“

3. Þegar startkaplarnir eru tengdir skal síðasta kapalklemman (nr 4) látin bíta sig fasta við ómálaðan málm, t.d. boltahaus, eins langt frá geyminum og kostur er. Ástæðan er sú að í tómum rafgeymi getur verið bráðeldfimt vetni sem snögg-kviknar í og geymirinn springur hreinlega við það að neisti myndast þegar kapalklemma nr 4 er tengd of nærri geyminum.

4. Þegar startkaplarnir eru tengdir við báða bílana skal setja hjálparbílinn (þann sem gefur strauminn) í gang og síðan skal starta straumlausa bílnum.

5. Ath! Mesta hættan á því að skemma rafkerfin í bílunum við straumgjöf skapast þegar aftengja skal startkaplana. Þegar bíllinn með tóma geyminum er kominn í gang skulu startkaplarnir vera tengdir saman um stund til þess að jafna út spennumismuninn milli tóma og fulla geymisins. Þetta skal gera til að forðast að neisti og yfirspenna hlaupi út í „galopið“ rafkerfið eftir að búið er að gefa straum og skemmi eða eyðileggi rafeindabúnað annarshvors eða beggja bílanna.


FÍB mælir með: Notið einvörðungu vandaða startkapla.