Þau voru snör handtökin hjá starfsmönnum Advania í Borgartúni þegar Mike Pence bar að garði. Þeir sem vilja efla færni sína í að flagga með stuttum fyrirvara geta lært réttu handtökin frá Bjarna Frey Þórðarsyni félagsforinga skátafélagsins Hraunbúa.
„Fyrst og fremst þarf að gæta að því að fáninn snúi rétt, segir Bjarni Freyr.

„Það er vandræðalegt að sjá fána flaggað á hvolfi, þá nær hann ekki alveg upp. Og þá þarf að festa hann vel svo hann fjúki ekki í rokinu.“

Bjarni Freyr bendir á að í dag séu flestar fánatangir með smellur svo ekki þurfi að kunna skátahnútinn góða.

„Það eru góðar leiðbeiningar um hvernig á að flagga þjóðfánanum á vef Stjórnarráðs Íslands en það á að bera sig að með sérstökum hætti,“ segir Bjarni Freyr og á til dæmis við það hvernig eigi að bera fánann að stönginni og draga hann upp. 

„Á heimasíðunni er einnig að finna þær dagsetningar sem á að flagga á við opinberar stofnanir,“ segir Bjarni Freyr og lumar á góðu ráði fyrir flaggara landsins. „Þegar maður er búinn að draga upp fánann þá er gott að snúa bandinu einn hring í kringum fánastöngina áður en maður hnýtir. Þetta kemur í veg fyrir að smellir heyrist í stönginni í vindhviðum. Það getur nefnilega verið svolítið pirrandi,“ segir Bjarni Freyr.