Borgarráð samþykkti í síðustu viku að framlengja framkvæmdafrest rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi um fjögur ár vegna kirkjubyggingar á lóðunum Bræðraborgarstíg 2 og Bakkastíg 8.

Söfnuður Moskvu-patríarkatsins fékk lóðirnar úthlutaðar af Reykjavíkurborg í október 2008 en enn hefur ekkert gerst á reitnum þar sem fyrirhugað er að hin glæsilega kirkja rísi. Í skjölum málsins segir að framkvæmdafresturinn nú skiptist í tveggja ára frest til að hefja framkvæmdir annars vegar og tveggja ára frest til að ljúka við kirkjuna eftir að framkvæmdir hefjast hins vegar.

Í bókun meirihlutans, Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna, eru send skýr skilaboð um að kirkjan sé hér á síðasta séns. „Þótt skylda sveitarfélaga nái einvörðungu til að láta kirkjum þjóðkirkjunnar í té endurgjaldslausar lóðir þá markaði Reykjavíkurborg sér þá stefnu á árinu 1999, með vísan til almennra jafnræðissjónarmiða, að ekki ætti að gera upp á milli trúfélaga þegar kemur að réttindum þeirra til lóða eða undanþágu frá gjaldtöku af lóðum eða tilbeiðsluhúsum trúfélaga. Hér er verið að gefa frest til að hefja framkvæmdir vegna þess að trúfélagið vill minnka mannvirkið og með því er verið að verða við ósk borgarinnar. [...] En hér skal undirstrikað að þetta er frestur til að hefja framkvæmdir innan tveggja ára og þetta er lokafrestur.“