Hæstiréttur hefur vísað máli Guðmundar Spartakusar gegn Atla Má Gylfasyni, frá dómi. Atli Már hafði í fréttaflutningi sínum bendlað Guðmund við hvarf Friðriks Kristjánssonar, sem hvarf sporlaust í Suður-Ameríku árið 2013. Guðmundur höfðaði málið vegna þrjátíu ummæla sem birtust í Stundinni og á vef blaðsins. Krafðist hann þess að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk. Atli hafði áður verið sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur, en tapað í Landsrétti.

„Mér líður ótrúlega vel. Þriggja ára baráttu er lokið, þó svo að sögu Friðriks sé ekki lokið. Þetta er lítil sárabót fyrir fjölskyldu Friðriks,“ segir Atli í samtali við Fréttablaðið. „Mér líður vel með forsendur dómsins. Réttlætið sigraði.“

Það sem vonast var til

Hæstiréttur tók málið fyrir á þeim forsendum að það snerist um rétt blaðamanna til að vitna í nafnlausa heimildamenn. Í samtali við Fréttablaðið segir Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Atla að hann sé ánægður með niðurstöðu dómsins og að hún sé í takti við það sem hann hafi vonað og talið vera rétta niðurstöðu. „Þetta er það sem við vonuðum og töldum að væri rétt. Þetta útilokar ekki að hann haldi málinu til streitu,“ segir hann en bendir á að til þess þurfi málið að fara fyrir öll þrjú dómsstigin aftur.

„Þú ert að segja mér fréttir“

„Þú ert segja mér fréttir. Ég á eftir að fá dóminn sendan,“ sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar, en hann hafði ekki heyrt niðurstöðuna þegar Fréttablaðið talaði við hann í morgun og vildi ekki tjá að svo stöddu.

Fram hefur komið í umfjöllum Fréttablaðsins að fjölskylda Friðriks hafi verið ánægð með umfjöllun Atla. Þar sagði Kristján Einar Kristjánsson, bróðir Friðriks að það væri í raun fjölmiðlum að þakka að fjölskyldan viti að Guðmundur sé á lífi og umfjöllun Atla hafi fært þau nær svörum.