Réttindagæsla fatlaðs fólks verður á vakt á kjördag á meðan kjörstaðir eru opnir, en fatlaðir kjósendur geta leitað til þeirra og fengið að tala við réttindagæslumann sem aðstoðar þá með málefni sem snúa að kosningum og að fara á kjörstað og kjósa.

Um áramótin tóku ný kosningalög gildi þar sem fyrirkomulagi um aðstoð við kjósendur við atkvæðagreiðslu var meðal annars breytt. Með lögunum er fallið frá kröfu um vottorð frá réttindagæslumanni fatlaðs fólks til að fá aðstoð við atkvæðagreiðslu

Nú hefur kjósandi rétt á aðstoð við atkvæðagreiðsluna, en nóg er að hann mæti á kjörstað og óski eftir aðstoð. Sú aðstoð verður þá veitt af þeim úr kjörstjórn sem kjósandi tilnefnir. Óþarfi er að kjósandi útskýri fyrir kjörstjórn hvers vegna hann þarfnast aðstoðar.

Kjósandi getur einnig komið með aðstoðarmann sem hann velur á kjörstað, en með undantekningum þó. Aðstoðarmaður má ekki vera frambjóðandi eða maki, börn, systkini og foreldrar frambjóðanda. Þá má aðstoðarmaður ekki veita fleirum en þremur kjósendum aðstoð við sömu kosningu.

Hægt verður að hafa samband við Réttindagæslu fatlaðs fólks á kjördag milli 09:00 og 22:00 í síma 554-8100, eða með tölvupósti.

Þá er einnig hægt að hafa samband í gegnum Facebook síðuna Réttindagæsla fatlaðs fólks.