Valgerður Árnadóttir, formaður Samtaka grænkera á Íslandi og Pírati, segir með öllu óeðlilegt að halda dýr við þær aðstæður líkt og minkar búa við á minkabúum. Sjúkdómar á borð við Covid-19, svínaflesu og fuglaflensu eigi sér allir uppruna í verksmiðjubúskap og réttast væri að leggja hann alveg af.

„Mér finnst þetta siðlaus iðnaður og dýraníð. Þegar að dýrum er haldið við svo hræðilegar aðstæður þá grassera þar ýmsir sjúkdómar. Við sjáum þetta í Danmörku núna þar sem að kórónuveiran hefur stökkbreyst í minkum og getur valdið því að enn fleiri deyja. Þetta snýst ekki bara um það að dýrin hafi það slæmt heldur hefur þetta líka áhrif á fólk."

Á miðvikudaginn var greint frá því að stökkbreytt afbrigði kórónuveirunar hafi greinst í minkum á minkabúi á Jótlandi í Danmörku og í kjölfarið verði allir minkar í landinu aflífaðir. Matvælastofnun gaf það út í gær að stofnunin ætli að hefja skimun fyrir kórónuveiru á minkabúum landsins. Ekki er þó grunur um að kórónuveirusmit hafi komið upp á minkabúum hér á landi.

Valgerður segir þetta vekja upp enn fleiri spurningar af hverju við erum yfirhöfuð að þessu. Þetta sé iðnaður sem hafi ekki staðið undir sér lengi, a.m.k ekki á Íslandi og að mörg lönd séu búin að leggja hann alfarið af. Lönd sem viðurkennt hafa grimmd loðdýraræktarinnar eru m.a. Bretland, Austurríki, Króatía, Belgía, Tékkland, Lúxemborg, Holland og frá 2025 verður loðdýrarækt bönnuð í Noregi. Þá gilda mjög strangar reglur um slíkan búskap í Svíþjóð og Sviss. „Mér finnst líklegt að þær aðstæður sem hafa komið upp í Danmörku núna verði til þess að síðasti naglinn verði negldur í líkkistu þessa iðnaðar þar í landi," segir Valgerður.

Íslendingar alltaf verið á móti minkabúum

Fyrsti minkurinn var fluttur til landsins í kringum 1930 til loðdýraræktunar. Valgerður segir að Íslendingar hafi í raun aldrei viljað fá þennan iðnað til landsins.

„Það voru margir á móti því þegar að fyrstu minkarnir voru fluttir til landsins. Þá óttaðist fólk mest um vistkerfið okkar, fuglalífið okkar og það með réttu. Auðvitað sluppu þessi dýr út í náttúruna og hafa valdið miklum usla í vistkerfinu síðan. Þetta er ekki dýr sem á að lifa á Íslandi, við fluttum það inn og höfum farið illa með það í níutíu ár. Það er réttast að þessi iðnaður verði lagður niður aftur enda höfum við fjarlægst þetta mjög mikið síðastliðin ár," segir Valgerður.

Markaðurinn fyrir loðskinn hefur átt undir högg að sækja um allan heim síðustu ár. Níu minkabú eru nú starfrækt á Íslandi, á Norðurlandi vestra og Suðurlandi, með alls 15 þúsund eldislæðum. Flestir hafa loðdýrabændur verið 240 eða á árunum 1987 til 1989. Eftir aldamótin varð hrun og flestir eftir það hafa bændurnir verið 45 talsins. Í lok árs 2018 voru búin 14 og hefur því fækkað um fimm síðastliðin tvö ár.

Fataframleiðendur sýni ábyrgð

Loðdýrafeldur er einna helst notaður í fataframleiðslu. Valgerður vonar að fataframleiðendur taki ábyrgð og hætti að nota loðfeldi í sína framleiðslu. Þar nefnir hún t.d. Cintamani og 66° norður sem báðir nota ekta loðfeldi á flíkur sínar, að vísu ekki mikið af minkafeldi en þvottabirni og refi.

„Ég vona að fataframleiðendur sjái sóma sinni í því að hætta að styðja við þennan iðnað, hann er ekki einungis siðlaus heldur beinlínis hættulegur."

Valgerður segir jafnframt að það sé að sjáfsögðu mjög sorglegt að það sé verið að aflífa alla minka í Danmörku vegna kórónuveirunnar en raunveruleikinn sé sá að allir þessir minkar yrðu á endanum drepnir á minkabúum hvort eð er. „ Ef við hættum að rækta minka og hættum að láta þá fjölga sér þá er hægt að finna einhvern endi á þessu. Ég get með engu móti stutt þennan iðnað né skilið hvers vegna við erum yfir höfuð enn þá að reyna að halda í hann. Það er ekki forkastanlegt."