Efla þarf þátttöku Íslands í starfi Evrópuráðsins, að mati Róberts Spanó forseta Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE). Þetta kom fram í erindi hans á málþingi undir yfirskriftinni Réttarríki, lýðræði og Mannréttindasáttmáli Evrópu, í Háskóla Íslands í gær

„Ísland verður að gegna þar lykilhlutverki samhliða öðrum Norðurlöndum, sérstaklega á þeim tímum sem við nú lifum. Raunar þarf að efla enn frekar þátttöku Íslands í þessu samstarfi og ekki síst með það í huga að Ísland mun taka við formannssætinu í ráðherranefnd Evrópuráðsins í nóvember á næsta ári,“ sagði Róbert í erindi sínu.

Róbert hafnaði fullyrðingum um að réttarríkið væri orðið að innantómu slagorði eða draumórum, sem misst hefðu öll tengsl við raunveruleikann. Hann rifjaði upp þá vegferð sem mörkuð var á árunum 1994 til 1995 er Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur hér á landi og endurbætur gerðar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Sjaldan hafi verið mikilvægara en nú að hvergi verði hvikað frá þeirri vegferð.

„Við lifum á viðsjárverðum tímum. Við skulum ekki velkjast í vafa um það. Leitast er við að grafa undan réttarríkinu, lýðræðinu og mannréttindum, sem eru undirstöður okkar stjórnskipunar og tilvistargrundvöllur Evrópuráðsins,“ sagði Róbert.

Hann vék að gagnrýni á Mannréttindadómstólinn bæði hér heima og í ríkjum sem legið hafa undir ámæli fyrir aðför að dómsvaldi sínu. Eðli málsins samkvæmt komi stundum dómar frá MDE sem valdhöfunum mislíki. Þá sé einnig skiljanlegt að stjórnmálamenn kunni, í hita leiksins, að misskilja hlutverk dómstólsins.

Hlutverk lögfræðinga að minna á grundvallarreglur stjórnskipunar

„En ábyrgð þeirra sem til þekkja, einkum lögfræðinga, er aftur á móti mikil við slíkar aðstæður,“ sagði Róbert. Eðlilegt sé að þeir ræði úrlausnir dómstólsins og annarra dómstóla.

„En við það verður að gera athugasemdir að því sé haldið fram af þeim sem lengi hafa starfað sem dómarar eða lögfræðingar, án nokkurra haldbærra raka, að Mannréttindadómstóllinn sé í störfum sínum kominn inn á hið pólitíska svið með því einfaldlega að leysa úr þeim málum sem honum berast í samræmi við skýran texta sáttmálans,“ sagði Róbert og bætti við:

„Kjarninn er sá að það er einmitt hlutverk lögfræðinga í réttarríki að leggja sitt af mörkum til að minna á þær grundvallarreglur sem stjórnskipan okkar er reist á, sérstaklega þegar stormar geisa í þjóðfélags­umræðunni.“

Róbert rifjaði upp þá samstöðu sem ríkti á Alþingi um lögfestingu Mannréttindasáttmálans, ekki aðeins ákvæðin um mannréttindin sjálf heldur einnig ákvæðin um dómstólinn og áhrif dóma hans hér innanlands. Í lögskýringargögnum með lögfestingunni kæmi skýrt fram að dómar MDE skyldu teljast fordæmi sem skyldu hafa leiðsagnargildi.

Róbert fagnaði jákvæðum breytingum sem orðið hefðu á íslenska dómskerfinu og tók dæmi um nýlegan dóm Hæstaréttar þar sem minnt er á að Hæstiréttur hafi „ítrekað slegið því föstu að líta beri til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu við skýringu ákvæða mannréttindasáttmálans, þegar reynir á hann sem hluta af landsrétti.“