Pétur Guðmann Guðmannsson réttarlæknir gerir flestar krufningar þegar vafasöm dauðsföll verða hér á landi. Hann segist ánægður með raunsæjar lýsingar á vettvangsrannsóknum í Svörtu söndum sem byrjað var að sýna á Stöð 2 um jólin.

Í fyrsta þætti voru rannsakendur meðal annars sýndir áætla dánartíma með því að taka líkamshitann með endaþarmsmæli.

„Mér fannst þetta vera gert einstaklega vel og það er ýmislegt þarna sem ég hef bara ekki séð áður í svona krimmaþáttum,“ segir Pétur.

Svörtu sandar fjalla um eltingarleik lögreglukonunnar Anítu við hugsanlegan raðmorðingja í smábæ úti á landi og byggja á hugmynd rannsóknarlögreglumannsins Ragnars Jónssonar sem semur handritið ásamt leikstjóranum Baldvin Z og aðalleikkonunni Aldísi Amah Hamilton.

Var á hliðarlínunni

Pétur segist ekki hafa komið beint að ráðgjöf við handritsgerðina en þeir Ragnar þekkist vel í gegnum störf sín. „Ég var í raun bara á hliðarlínunni en við röbbuðum svolítið um þetta óformlega og ég vissi að það stóð til að hafa þetta realískt. Ég var mjög hrifinn af þessu.“

Pétur segir endaþarmsmælinguna á líkinu gott dæmi um hve raunsæja mynd þættirnir gefi af vinnubrögðum lögreglu við morðrannsókn. „Mælingar í endaþarminn eru náttúrulega alveg bara alfa og ómega þess að skoða lík á vettvangi. Sérstaklega ef mann grunar eitthvað misjafnt.

Hvergi er dregið úr í lýsingum á vettvangsrannsóknum í Svörtu söndum.

Svo náttúrulega sér maður það að þeir eru að reyna að láta líkið líta út fyrir að vera stjarft, sem er líka nýtt. Maður sér það ekki oft og það er eitthvað sem öll lík sýna mjög vel. Þannig að þetta var frekar raunverulegt fannst mér hjá þeim,“ segir Pétur.

Hann segir þannig skína vel í gegn hversu vel Ragnar er að sér á þessu sviði. „Mér fannst þetta virkilega mikill metnaður hjá þeim að vilja hafa þetta, líkskoðunina og hvernig líkið kemur fyrir, svona raunverulegt.

Þessu eru oft ekki gerð skil og sérstaklega í amerískum þáttum. Þar eru hlutirnir oft bara einhvern veginn, svo lengi sem það hentar dramanu og þeir gefa sér mikið skáldaleyfi,“ útskýrir hann.

Endaþarmsmæling ekki það eina sem er notað

Pétur segir að endaþarmsmæling sé þó ekki endilega það eina sem sé notað. „Maður þarf alltaf að reyna að gera dánartímarannsókn og aðalkjarninn í því er að mæla hitastigið í líkamanum. Þá er það um endaþarminn eins og á sjúkrahúsi en það er líka hægt að velja að stinga mælinum inn í lifrina. Það er ekkert að því í sjálfu sér en allar nýlegar tölur miða við endaþarminn.

Pétur segir líkstjarfann svo vera lykilatriði og gert hafi verið ráð fyrir honum í þættinum. „Að brjóta líkstjarfann er líka eitt af því sem maður notar til að meta til dæmis dánartímann og hvað hann er kominn langt. Þessu hefur maður ekki séð gert hátt undir höfði í sjónvarpi áður, en þetta er grunnatriði.“

Hann segist gefa Svörtu söndum sína hæstu einkunn. „Þetta var mjög skemmtilegur þáttur og ég hlakka til að sjá hvernig verður með næstu lík sem ég geri ráð fyrir að muni dúkka upp.“