Á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna í dag boðuðu Stíga­mót og tólf önnur kvenna- og jafn­réttis­sam­tök til blaðamannafundar í Þjóð­leik­húsinu. Á fundinum kom fram að níu konur hafa kært ís­lenska ríkið til Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu (MDE) fyrir að hafa brotið á rétti þeirra til rétt­látrar máls­með­ferðar.

Konurnar voru á bilinu 17 til 42 ára þegar þær kærðu brot á borð við nauðgun, heimilis­of­beldi og kyn­ferðis­lega á­reitni. Flestar kærurnar voru lagðar fram hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu og eiga málin það öll sam­eigin­legt að hafa verið felld niður af á­kæru­valdinu.

Lögmaðurinn Sig­rún Ingi­björg Gísla­dóttir hefur umsjón með sókn málanna til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Mynd/Samsett

Mál fyrndust við rannsókn lögreglu

Mannréttindadómstóll Evrópu gerir strangar kröfur til þeirra mála sem lögð eru á borð hans en kær­endur þurfa að hafa tæmt öll úr­ræði innan­lands og kæra endan­lega niður­stöðu til dóm­stólsins innan sex mánaða frá því að hún liggur fyrir.

Stíga­mót tóku sér það fyrir hendur að leita uppi mál sem upp­fylltu þessar kröfur en lög­maðurinn Sig­rún Ingi­björg Gísla­dóttir hjá Rétti hefur um­sjón með málunum fyrir hönd brotaþola og sendi kærurnar til MDE. Við yfir­ferð Sig­rúnar á málunum komu í ljós ýmsar brota­lamir á rann­sókn og með­ferð þeirra innan réttar­vörslu­kerfisins.

Meðal þeirra ann­marka á rann­sókn lög­reglu sem vísað er til eru fyrningar mála á meðan þau voru í höndum lög­reglu, tafir á boðun sak­borninga og vitna í skýrslu­tökur sem ollu því að þeir höfðu marga mánuði til að sam­ræma frá­sagnir, sem og frá­vísun lög­reglunnar á sönnunar­gögnum á borð við sál­fræði­vott­orðum og ljós­myndum af líkam­legum á­verkum.

„Réttar­kerfið gerir lítið sem ekkert til að vernda konur gegn kyn­bundnu of­beldi. Og það sem verra er, að það er upp­lifun margra kvenna af réttar­kerfinu að þær séu ein­fald­lega beittar enn frekara of­beldi af kerfinu reyni þær að leita þangað að úr­lausn sinna mála. Þetta er auð­vitað full­kom­lega ó­á­sættan­legt og við eigum ekki að leyfa þessu að við­gangast,“ segir Steinunn Gyðu- og Guð­jóns­dóttir, tals­kona Stíga­móta.

Steinunn Gyðu- og Guð­jóns­dóttir, talskona Stígamóta, María Árnadóttir, kærandi, og Sig­rún Ingi­björg Gísla­dóttir, lögmaður hjá Rétti.
Fréttablaðið/Ernir

Aðeins 13 prósent dæmdra nauðgunarmála enda með sakfellingu

Í yfir­lýsingu sem send var til fjöl­miðla kemur meðal annars fram að að­eins 17 prósent til­kynntra nauðgunar­mála fara fyrir dóm og að­eins 13 prósent þeirra mála enda með sak­fellingu. Ætlunin með að kæra málin til Mann­réttinda­dóm­stólsins er að vekja at­hygli á því sem á­litið er vera kerfis­bundinn vandi innan ís­lenska réttar­kerfisins og að láta ís­lenska ríkið svara fyrir það á al­þjóða­vett­vangi.

Kvenna- og jafn­réttis­sam­tökin sem stóðu að fundinum hafa lagt fram fjórar kröfur um úr­bætur sem þau telja nauð­syn­legt að gera á réttar­kerfinu:

  1. „Að brota­þolar sem kæra kyn­ferðis­brot eða of­beldi í nánum sam­böndum verði veitt aðild að saka­málinu en séu ekki bara vitni í eigin máli.“
  2. „Að auknu fjár­magni sé veitt í rann­sókn og sak­sókn mála sem varða kyn­ferðis­brot og of­beldi í nánum sam­böndum til að tryggja eðli­legan máls­með­ferðar­tíma og góða rann­sókn.“
  3. „Að dómurum, sak­sóknurum og lög­reglu sé veitt fræðsla um vilja lög­gjafans varðandi þau á­kvæði sem snúa að kyn­ferðis­brotum og of­beldi í nánum sam­böndum. Þetta á sér­stak­lega við um nauðgunar­á­kvæðið sem byggir nú á sam­þykki.“
  4. „Að brota­þolar kyn­bundis of­beldis hafi rétt á gjaf­sókn í einka­máli gegn ger­endum of­beldisins til að auka mögu­leika brota­þola á laga­legri viður­kenningu á brotinu sé saka­mála­rann­sókn á broti gegn þeim hætt eða mál fellt niður.“

Sam­tökin sem boðuðu til fundarins eru: UN Wo­men - Ís­lensk Lands­nefnd, Femín­ista­fé­lag Há­skóla Ís­lands, Kven­fé­laga­sam­band Ís­lands, Kven­réttinda­fé­lag Ís­lands, Rótin - fé­lag um konur, á­föll og vímu­gjafa, WO­MEN In Iceland - Sam­tök kvenna af er­lendum upp­runa á Ís­landi, Kvenna­at­hvarfið, Kvenna­ráð­gjöfin, Flóra, Druslu­gangan, Aflið - sam­tök gegn kyn­ferðis og heimilis­of­beldi, Kvenna­hreyfing ÖBÍ og Stíga­mót.