Á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna í dag boðuðu Stígamót og tólf önnur kvenna- og jafnréttissamtök til blaðamannafundar í Þjóðleikhúsinu. Á fundinum kom fram að níu konur hafa kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) fyrir að hafa brotið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar.
Konurnar voru á bilinu 17 til 42 ára þegar þær kærðu brot á borð við nauðgun, heimilisofbeldi og kynferðislega áreitni. Flestar kærurnar voru lagðar fram hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og eiga málin það öll sameiginlegt að hafa verið felld niður af ákæruvaldinu.

Mál fyrndust við rannsókn lögreglu
Mannréttindadómstóll Evrópu gerir strangar kröfur til þeirra mála sem lögð eru á borð hans en kærendur þurfa að hafa tæmt öll úrræði innanlands og kæra endanlega niðurstöðu til dómstólsins innan sex mánaða frá því að hún liggur fyrir.
Stígamót tóku sér það fyrir hendur að leita uppi mál sem uppfylltu þessar kröfur en lögmaðurinn Sigrún Ingibjörg Gísladóttir hjá Rétti hefur umsjón með málunum fyrir hönd brotaþola og sendi kærurnar til MDE. Við yfirferð Sigrúnar á málunum komu í ljós ýmsar brotalamir á rannsókn og meðferð þeirra innan réttarvörslukerfisins.
Meðal þeirra annmarka á rannsókn lögreglu sem vísað er til eru fyrningar mála á meðan þau voru í höndum lögreglu, tafir á boðun sakborninga og vitna í skýrslutökur sem ollu því að þeir höfðu marga mánuði til að samræma frásagnir, sem og frávísun lögreglunnar á sönnunargögnum á borð við sálfræðivottorðum og ljósmyndum af líkamlegum áverkum.
„Réttarkerfið gerir lítið sem ekkert til að vernda konur gegn kynbundnu ofbeldi. Og það sem verra er, að það er upplifun margra kvenna af réttarkerfinu að þær séu einfaldlega beittar enn frekara ofbeldi af kerfinu reyni þær að leita þangað að úrlausn sinna mála. Þetta er auðvitað fullkomlega óásættanlegt og við eigum ekki að leyfa þessu að viðgangast,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta.

Aðeins 13 prósent dæmdra nauðgunarmála enda með sakfellingu
Í yfirlýsingu sem send var til fjölmiðla kemur meðal annars fram að aðeins 17 prósent tilkynntra nauðgunarmála fara fyrir dóm og aðeins 13 prósent þeirra mála enda með sakfellingu. Ætlunin með að kæra málin til Mannréttindadómstólsins er að vekja athygli á því sem álitið er vera kerfisbundinn vandi innan íslenska réttarkerfisins og að láta íslenska ríkið svara fyrir það á alþjóðavettvangi.
Kvenna- og jafnréttissamtökin sem stóðu að fundinum hafa lagt fram fjórar kröfur um úrbætur sem þau telja nauðsynlegt að gera á réttarkerfinu:
- „Að brotaþolar sem kæra kynferðisbrot eða ofbeldi í nánum samböndum verði veitt aðild að sakamálinu en séu ekki bara vitni í eigin máli.“
- „Að auknu fjármagni sé veitt í rannsókn og saksókn mála sem varða kynferðisbrot og ofbeldi í nánum samböndum til að tryggja eðlilegan málsmeðferðartíma og góða rannsókn.“
- „Að dómurum, saksóknurum og lögreglu sé veitt fræðsla um vilja löggjafans varðandi þau ákvæði sem snúa að kynferðisbrotum og ofbeldi í nánum samböndum. Þetta á sérstaklega við um nauðgunarákvæðið sem byggir nú á samþykki.“
- „Að brotaþolar kynbundis ofbeldis hafi rétt á gjafsókn í einkamáli gegn gerendum ofbeldisins til að auka möguleika brotaþola á lagalegri viðurkenningu á brotinu sé sakamálarannsókn á broti gegn þeim hætt eða mál fellt niður.“
Samtökin sem boðuðu til fundarins eru: UN Women - Íslensk Landsnefnd, Femínistafélag Háskóla Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Rótin - félag um konur, áföll og vímugjafa, WOMEN In Iceland - Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöfin, Flóra, Druslugangan, Aflið - samtök gegn kynferðis og heimilisofbeldi, Kvennahreyfing ÖBÍ og Stígamót.