Réttarhöld yfir Donald Trump Bandaríkjaforseta eru nú formlega hafin. Bandaríska þingið samþykkti í gær tillögu Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, um að senda áfram ákærurnar tvær gegn Trump til öldungardeildarinnar. Trump hefur verið ákærður til embættismissis fyrir misbeitingu á valdi, þar sem hann setti skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð til Úkraínu, og að hindra framgang þingsins, þar sem hann neitaði að leggja fram skjöl til fulltrúadeildarinnar og meinaði starfsmönnum Hvíta hússins að bera vitni.

Um 100 löggjafarmenn sóru embættiseið í dag við upphaf málsmeðferðarinnar og á næstu vikum munu öldungadeildarþingmennirnir ákveða örlög forsetans. Sé forsetinn fundinn sekur er hann sviptur embætti og mun þá varaforsetinn, Mike Pence, taka við sem forseti.

Sjálfstæða stofnunin Government Accountability Office, sem hefur eftirlit með framkvæmdavaldi Bandaríkjanna, komst að þeirri niðurstöðu í dag að Hvíta húsið hafi brotið lög þegar Trump setti skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð til Úkraínu. Reuters greinir frá.

Þrátt fyrir það þykir líklegt að öldungardeildin muni sýkna Trump þar sem meirihluti þingmanna eru Repúblíkanar.