Mál­flutningur í málinu gegn Derek Chau­vin hefst í Minnea­polis í dag en Chau­vin hefur verið á­kærður fyrir að hafa orðið Geor­ge Floyd að bana síðast­liðinn maí þegar hann kraup með hné sitt á hálsi Floyd í tæpar níu mínútur við hand­töku. Réttar­höldunum í heild verður streymt af fjöl­miðlum en það er í fyrsta sinn sem slíkt er gert í Min­nesota-ríki.

Chau­vin, sem var lög­reglu­maður þegar Floyd lést, hefur al­farið neitað sök en hann er á­kærður fyrir annars stigs og þriðja stigs morð og annars stigs mann­dráp vegna málsins. Málið vakti mikla at­hygli um allan heim eftir að mynd­skeið af hand­tökunni fóru í dreifingu á netinu. Mót­mæli brutust út víða þar sem kallað var eftir endur­bótum í lög­reglu­kerfinu.

Tekist á um hlut Chauvin í dauða Floyd

Að því er kemur fram í frétt CNN um málið munu sak­sóknarar halda því fram að Chau­vin hafi beitt ó­hóf­legu valdi við hand­tökuna sen hafi leitt til dauða Floyd og þurfa þeir að sýna að að­gerðir Chau­vin hafi valdið dauða Floyd, án alls efa.

Verj­endur Chau­vin munu aftur á móti halda því fram að Floyd hafi í raun látist vegna ó­tengdra heilsu­fars­vanda­mála og lyfja­notkun, en fenta­nýl fannst til að mynda í blóði Floyd við krufningu. Þá munu þeir halda því fram að Chau­vin hafi farið eftir verk­ferlum lög­reglu. Ó­ljóst er enn hvort Chau­vin sjálfur muni gefa vitnis­burð sér til varnar.

Gæti átt von á þungum dómi

Val á kvið­dómurum fyrir réttar­höldin hófst fyrir þremur vikum síðan en fyrir það þurftu mögu­legir kvið­dómarar að svara ítar­legum spurninga­lista til að tryggja hlut­leysi þeirra. Í ljósi þess hversu mikla at­hygli málið vakti var ljóst að það gæti reynst erfitt að finna kvið­dómara sem gætu lagt mat á sönnunar­gögnin ein og sér.

Alls voru fimm­tán kvið­dómarar fyrir valinu, þar af þrír sem verða til vara, en um er að ræða sex karl­menn og níu konur. Verði Chau­vin fundinn sekur í öllum á­kæru­liðum á hann yfir höfði sér allt að 75 ára fangelsi en hann gæti verið dæmdur í ein­hverjum liðum en sýknaður í öðrum og því fengið vægari dóm.

Aðrir lög­reglu­menn sem komu að hand­tökunni þann 25. maí 2020, Thomas Lane, J. Alexander Kueng og Tou Thao, hafa einnig verið á­kærðir fyrir að hafa verið sam­sekir Chau­vin í tengslum við dauða Floyd. Gert er ráð fyrir að réttað verði yfir þeim í sumar.