Réttar­höld yfir Gunnari Jóhanni Gunnars­syni, sem er á­kærður fyrir að hafa orðið hálf­bróður sínum að bana í norska smá­bænum Mehamn í apríl í fyrra, hefjast í dag. Réttar­höldunum hefur verið frestað í tví­gang, annars vegar vegna þess að aðal­með­ferð var sett of snemma á dag­skrá og hins vegar vegna kóróna­veirufar­aldursins.

Gunnar er sakaður um að hafa myrt hálf­bróður sinn, Gísla Þór Þórarins­son, að­fara­nótt 27. apríl 2019 með því að skjóta hann á heimili hans með hagla­byssu. Gísli lést af sárum sínum í kjöl­farið en á­kæran á hendur Gunnari er í sex liðum, meðal annars fyrir mann­dráp, hótanir og brot á nálgunar­banni.

NRK hefur það eftir verjanda Gunnars, Bjørn André Gul­stad, að Gunnar muni ekki játa brotið en hann hefur á­valt haldið því fram að um slys væri að ræða. Hann hafi ekki ætlað sér að skjóta Gísla heldur að­eins að hóta honum vegna sam­bands hans við barns­móður Gunnars.

Tilkynnti lögregluna til eftirlitsstofnunar

Í frétt NRK er saka­ferill Gunnars rakinn og er vísað til þess að hann hafi hlotið dóm fyrir nauðgun og líkams­á­rás hér á landi. Þá er einnig vísað til þess að einungis tveimur mánuðum fyrir morðið á Gísla hafi lög­regla haft til rann­sóknar hótanir Gunnars í garð barns­móður sinnar og Gísla.

Hann hafi verið úr­skurðaður í nálgunar­bann eftir að hann komst að sam­bandi þeirra í apríl þar sem hann var sagður hafa brugðist harka­lega við fréttunum og sagst vilja drepa Gísla. Einungis tíu dögum síðar skaut Gunnar Gísla til bana.

Lög­maðurinn Edel Ol­sen til­kynnti lög­regluna í Finn­mörk til eftir­lits­stofnunar vegna málsins en hún taldi að rann­saka ætti hvort lög­regla hefði gert mis­tök og brotið á skyldum sínum til að koma í veg fyrir refsi­vert brot. Síðast­liðinn mars komst eftir­lits­stofnunin að þeirri niður­stöðu að lög­regla hafi ekki gert neitt rangt í málinu.

Vissu af erfiðu sambandi bræðranna

Hún neitaði að tjá sig frekar um málið og vísaði til gagna eftir­lits­stofnunarinnar sem NRK hefur nú undir höndum. Þar kemur fram að lög­regla hafi haft vit­neskju um of­beldis­fulla hegðun Gunnars nokkrum mánuðum fyrir morðið. Að­spurður við yfir­heyrslu lög­reglu um hvað Gunnar myndi gera sagði Gísli að hann væri ekki viss en að „annar okkar mun ekki lifa af.“

Ol­sen segir lög­reglu þannig hafa vitað af morð­hótunum Gunnars í garð Gísla og að „af­brýðis­semi, svik, ölvun, and­leg veikindi og fyrri of­beldis­brot,“ væru í sögu fjöl­skyldunnar. Eftir­lits­stofnunin lýsti aftur á móti sam­bandi bræðranna sem „góðum fram til 16. apríl 2019.“

Þá er vísað til þess að Gunnar hafi verið að glíma við and­leg veikindi og hafi verið lagður inn á geð­deild en eftir­lits­stofnunin segist ekki hafa fengið neina til­kynningu frá heil­brigðis­yfir­völdum um þau veikindi þar sem á­stand hans var ekki talið al­var­legt.

Þrátt fyrir að Ol­sen telji að hægt hafi verið að koma í veg fyrir morðið segir ríkis­sak­sóknari að lög­reglan hafi ekki gert neitt rangt. Verði Gunnar dæmdur sekur fyrir manndráp af ásetningi á hann von á allt að 12 ára fangelsisvist.