Réttarhöld hófust gegn bandaríska söngvaranum R. Kelly í gær. Kelly er sakaður um að hafa rekið kynlífshring þar sem hann beitti fjölda kvenna og stúlkna kynferðisofbeldi. Hafið var að velja kviðdómara í máli Kelly í New York á mánudaginn en auk ákæru þar á Kelly yfir höfði sér ákærur í Illinois og Minnesota. Áætlað er að vitnisburðir í málinu hefjist þann 18. ágúst og að réttarhöldin muni vara í minnst fjórar vikur.

Í ákærunni er Kelly sakaður um að hafa starfrækt glæpahring sem laðaði ungar stúlkur til kynferðislegra athafna með honum. Meðal annars hafi hann læst þær inni á hótelherbergjum þegar hann fór á tónleikaferðalög, einangrað þær, gert þær fjárhagslega háðar sér og stundað kynlíf með þeim án þess að greina þeim frá kynsjúkdómum sem hann var haldinn. Jafnframt hefur Kelly sætt ásökunum um að hafa undir höndunum barnaklám og um að falsa persónuskilríki í Illinois til þess að geta kvænst stúlku sem þá var aðeins fimmtán ára.

Við val á kviðdómurum var ein kona sem hafði verið kölluð til undanþegin þjónustu eftir að hún lét þau orð falla að „konur [lygju] ekki“ um nauðganir eða kynferðisofbeldi. Að því er kemur fram í frétt Channel24 var önnur kona undanþegin þegar hún viðurkenndi að hún hefði sjálf orðið fyrir sams konar ofbeldi í barnæsku og Kelly er sakaður um að hafa framið. Einn karlmaður var jafnframt leystur úr kviðdómnum eftir að hann sagðist eiga erfitt með að viðhalda hlutleysi þegar kynferðislegar athafnir samkynja einstaklinga væru annars vegar, en dómarinn hafði þá gefið út að slíkar athafnir yrðu til umfjöllunar í málinu.

Kelly hefur verið í varðhaldi í rúm tvö ár í aðdraganda réttarhaldanna.