Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að íslensk stjórnvöld fylgist grannt með málefnum Katalóníu en réttarhöld yfir átján leiðtogum katalónsku aðskilnaðarhreyfingarinnar hefjast við hæstarétt Spánar í dag. Búast má við því að þau standi yfir í nokkra mánuði. Saksóknari dómsmálaráðherra, ríkissaksóknari og þjóðernishyggjuflokkurinn Vox höfða málið. Alls krefjast opinberu aðilarnir tveir fangelsisdóms yfir tólf af hinum ákærðu. Þar af eru tveir aðgerðasinnar, níu fyrrverandi ráðherrar héraðsstjórnarinnar og einn fyrrverandi þingforseti.

Málið má rekja aftur til haustsins 2017 en Katalónar gengu til atkvæðagreiðslu um sjálfstæði þann 1. október. Ákærðu eru sökuð um uppreisn, uppreisnaráróður og jafnvel skipulagða glæpastarfsemi vegna sjálfstæðisatkvæðagreiðslunnar- og yfirlýsingarinnar.

Mannréttindabaráttusamtök hafa fordæmt málið, þá sérstaklega þá staðreynd að aðgerðasinnarnir tveir, Jordi Cuixart, formaður samtakanna Omnium Cultural, og Jordi Sanchez, formaður Katalónska þjóðfundarins (ANC), hafa verið vistaðir í gæsluvarðhaldi í að verða eitt og hálft ár. Einnig haldið því fram að verið sé að vega að mannréttindum ákærðu.

Koma áhyggjum á framfæri

„Við höfum ítrekað komið áhyggjum okkar á framfæri við spænsk stjórnvöld, nú síðast í janúar þegar sendiherra Íslands gagnvart Spáni sótti reglubundinn fund í spænska utanríkisráðuneytinu. Þá hafa málefni Katalóníu einnig ítrekað verið tekin upp við sendiherra Spánar gagnvart Íslandi,“ segir Guðlaugur Þór.

Utanríkisráðherra segir að auki að stjórnvöld hafi lagt áherslu á að friðsamleg lausn finnist á deilunni og að mannréttindi séu virt. „Við munum áfram fylgjast náið með framvindu mála og hafa samráð við okkar helstu samstarfsríki. Sjálfur tók ég málefni Katalóníu upp við þáverandi utanríkisráðherra Spánar í fyrra þegar við hittumst á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og hefur því samtali svo verið fylgt eftir af hálfu embættismanna,“ bætir hann við.

Afbrigðileg réttarhöld

Olivier Peter, lögmaður Cuixarts, segir í samtali við Fréttablaðið að réttarhöldin séu bæði einstök og afbrigðileg. Þótt ekkert bendi til þess að Cuixart hafi brotið af sér sé nú þegar búið að ákveða hver niðurstaðan verður.

„Mannréttindadómstóll Evrópu hefur áður fordæmt Spán fyrir hlutdrægni nokkurra dómara sem starfa innan þessa afbrigðilega dómsvalds, GRECO hefur ítrekað gagnrýnt að dómarar séu skipaðir með samkomulagi Sósíalistaflokksins og Lýðflokksins, og einn talsmanna Lýðflokksins viðurkenndi nýverið að flokkurinn stýrði sakamáladeild hæstaréttar „úr bakherbergjunum“,“ segir Peter og bætir við:

„Loks er vert að nefna að forseti hæstaréttar sat í ráðuneyti José Maria Aznar og var þannig hluti af íhaldssamasta og þjóðernissinnaðasta væng spænska hægrisins. Þetta eru ekki einfaldlega dómarar sem úrskurða um sekt eða sakleysi. Þetta eru spænskir þjóðernishyggjumenn sem eru að úrskurða um rétt Katalóna til sjálfsákvörðunar. Í ljósi þessara aðstæðna er ljóst að dómurinn yfir hinum ákærðu er löngu ákveðinn.“

Að sögn Peters hefur sú skylda dómskerfisins að álíta ákærðu saklaus uns sekt er sönnuð verið virt að vettugi. Nefnir hann í því samhengi langt gæsluvarðhald Cuixarts og vangaveltur ríkisstjórnar Sósíalistaflokksins um möguleikann á því að náða ákærðu ef þau hætta að vinna að pólitísku markmiði sínu.

Alþjóðlegur þrýstingur

„Spænska ríkið hefur fengið fyrirsjáanleg viðbrögð frá alþjóðlegum mannréttindasamtökum. Amnesty International, World Organization Against Torture, International PEN, Front Line Defenders og fjölmörg önnur samtök hafa gagnrýnt ásakanirnar gegn herra Cuixart og sagt að staðreyndir málsins sýni fram á að hann hafi einungis verið að nýta tjáningarfrelsi sitt. Samtökin hafa kallað eftir því að ákæran verði felld niður og honum sleppt úr haldi tafarlaust,“ segir Peter.

Því segir Peter að Spánn standi frammi fyrir tveimur valkostum. Annaðhvort dæmi hæstiréttur ákærðu í fangelsi og stilli sér þannig upp með öfgaþjóðernishyggjumönnum, á borð við Vox sem krefjast allt að 74 ára fangelsis, og fórni þannig trúverðugleika sínum á alþjóðavettvangi. Ellegar gætu Spánverjar sýknað ákærðu og leyst úr haldi. „Ef dómurinn er nú þegar ákveðinn gæti svo farið að mikil fjöldamótmæli í Katalóníu og þrautseigja alþjóðlegra gagnrýnenda neyði Spán til þess að hugsa sinn gang.“

Aðdragandi réttarhaldanna hefur verið umdeildur. Bæði hafa Katalónar gagnrýnt að lykilvitni þeirra fái ekki að koma fyrir dóm þegar sama gildir ekki um vitni saksóknara og svo féll ákvörðun hæstaréttar um að hafna samtökum um að stunda alþjóðlegt eftirlit í grýttan jarðveg. „Viðvera alþjóðlegra eftirlitsmanna truflar hæstarétt greinilega en það er enn eitt einkenni þess hve afbrigðileg þessi réttarhöld eru. Það að samtökum hafi verið neitað um að stunda eftirlit sýnir eðli hæstaréttar,“ segir Peter.

Lögmaðurinn segist nú ætla að einbeita sér að því að vekja máls á „þeim mörgu brotum“ á grundvallarmannréttindum skjólstæðings síns sem og að tryggja að nauðsynleg skilyrði séu uppfyllt svo hægt sé að fara með málið áfram fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. 

Mun ræða um meint lögregluofbeldi

„Jordi Cuixart hefur sagt að hann fari ekki til Madrídar til að verja sig heldur til að saka spænska ríkið um mannréttindabrot. Réttarhöldin verða því, á sinn hátt, réttarhöld yfir ríkinu, sérstaklega með tilliti til þess mikla og útbreidda ofbeldis sem herinn og spænska lögreglan beittu kjósendur þann 1. október 2017 þegar rúmlega þúsund særðust,“ segir Peter og bætir því við að spænska ríkisstjórnin geri lítið úr framgöngu lögreglu þennan dag.

„Utanríkisráðherrann Josep Borell kallar þetta „falsfréttir“. Þar sem spænska dómskerfið réðst ekki í alvarlega og ítarlega rannsókn á málinu á sínum tíma gefa þessi réttarhöld okkur tækifæri til þess að ljá fórnarlömbum ofbeldisins rödd og sýna heiminum að eini aðilinn sem beitti ofbeldi þennan dag var ríkið.“

Öfgaflokkur í kosningabaráttu

Aðkoma Vox að réttarhöldunum er umdeild. Flokkurinn komst inn á héraðsþing Andalúsíu á dögunum og hafði aðkomu að stjórnarmyndun í héraðinu. Peter þykir skjóta skökku við að kjarni máls ríkissaksóknara og saksóknara dómsmálaráðuneytisins sé sá sami og hjá öfgaflokknum. „Þessi öfl hafa tekið höndum saman um að krefjast þungra fangelsisdóma yfir fólki sem kom að lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu sem meira en tvær milljónir kjósenda tóku þátt í,“ segir Peter.

Hann segir að Vox nýti þessi málaferli sem kosningabaráttu og fái því mikla fjölmiðlaumfjöllun vegna þeirra. „Framkvæmdastjóri flokksins er lögmaður hans í málinu. Því miður leyfði hæstiréttur því að viðgangast en dómstóllinn hafnaði beiðni Cuixarts um að útiloka öfgaflokkinn frá málinu.“

Segir réttarhöldin glæp

Að lokum segir Peter að ekkert sé eðlilegt við komandi réttarhöld. „Þau eru í raun glæpur gegn pólitískum andstæðingi, framinn í pólitískum tilgangi. Réttarhöldin eru pólitísk. Markmiðið er ekki að framfylgja lögum heldur að fjarlægja pólitíska leikmenn af þinginu og af götunum og þannig veikja málstað þeirra.“

Lögmenn nokkurra hinna ákærðu boðuðu til blaðamannafundar í gær. Þar sagði Olga Arderiu, lögmaður fyrrverandi þingforsetans Carme Forcadell, að skjólstæðingur sinn væri ákærður vegna þess að hún heimilaði umræður um sjálfstæðismálið á þingi. „Þessi réttarhöld leitast við að gera sjálfstæðishreyfinguna glæpsamlega og eru þannig brot gegn borgaralegum réttindum,“ sagði Arderiu.

Þá bætti hún því við að réttarhöldunum hafi verið flýtt og að ákærðu hafi fengið að vita með sex daga fyrirvara að þau væru að hefjast. „Réttarhöldin hefjast á morgun og við höfum ekki enn fengið aðgang að öllum þeim gögnum sem stendur til að nýta við réttarhöldin.“

Fullt lýðræði á Spáni

Ekki hefur náðst í Vox né saksóknara hins opinbera þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Í grein sem spænska sendiráðið sendi Fréttablaðinu, en reyndist of löng til birtingar, sagði Rafael Arenas García, prófessor í lögfræði, að réttarhöldin myndu sýna fram á hið sanna í málinu. García lagði áherslu á að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði 103 sinnum úrskurðað gegn Spáni en mun oftar gegn til dæmis Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Belgíu.

„Spánn er lýðræðisríki þar sem virðing er borin fyrir skiptingu ríkisvalds. Allir alþjóðlegir mælikvarðar sýna að á Spáni ríkir fullt lýðræði og allar ásakanir um að lýðræði sé ábótavant í okkar ríki eða um að mannréttindi séu í hættu þarf að hrekja því þær eru einfaldlega ósannar,“ skrifaði García.

Aukinheldur sagði hann að atburðirnir haustið 2017 hefðu verið aðför gegn spænsku stjórnarskránni og að mörgum borgurum, sem aðhylltust ekki hugmyndir aðskilnaðarsinna, hafi þótt sér ógnað. „Þessir borgarar þurftu að sæta ólögmætum aðgerðum héraðsstjórnarinnar vikum saman. Persónulegar upplýsingar þeirra voru nýttar á ólöglegan hátt til þess að gera þá gagnagrunna sem þurfti fyrir aðskilnað. Skólar barna þeirra voru nýttir í ólöglegum tilgangi og gerðir að verkfærum aðskilnaðarsinna,“ skrifaði García og vísaði þar til þess að skólar voru nýttir sem kjörstaðir í sjálfstæðisatkvæðagreiðslunni.