Lögmaður, sem gætti hagsmuna kvenna sem kærðu svokallaðan meðhöndlara til lögreglu fyrir kynferðisbrot, fær ekki skipun sem réttargæslumaður þeirra fyrir dómi, þar sem ákærði hyggst leiða hana fram sem vitni í málinu. Úrskurðað var um málið í Héraðsdómi Reykjaness í gær.

Eins og Fréttablaðið greindi frá leituðu nokkrar konur til Sigrúnar Jóhannsdóttur vegna meintra kynferðisbrota ákærða og fjölgaði þeim eftir að fjölmiðlar hófu að fjalla um málið. Sigrún var réttargæslumaður kvennanna á meðan málið var í rannsókn hjá lögreglu.

Maðurinn hefur nú verið ákærður fyrir að nauðga fjórum konum, en við þingfestingu málsins mun ágreiningur hafa risið um skipun Sigrúnar sem réttargæslumanns.

„Ég get ekki tjáð mig um hvað fram fer í dómsalnum, þar sem þetta er lokað þinghald,“ segir Steinbergur Finnbogason, verjandi ákærða. Aðspurður segir Steinbergur þó að lögfræðilegur tilbúningur málsins eigi sér aðdraganda sem standist tæpast skoðun og hann hyggist draga það fram í vitnaleiðslum.

Hann segir vísbendingar um að lögmaðurinn hafi sjálfur staðið að baki auglýsingar eftir skjólstæðingum í fyrirhugaða hópmálsókn gegn ákærða, undir dulnefni, á samfélagsmiðlum. „Aftakan á skjólstæðingi mínum hefur þegar farið fram, enda fjölmiðlar ítrekað upplýstir um árangur af þessari smölun á meintum fórnarlömbum hans.“

Ekki náðist í Sigrúnu við vinnslu fréttarinnar, en vegna úrskurðarins um vitnaskylduna er ljóst að hún uppfyllir ekki lengur skilyrði til að vera réttargæslumaður í málinu.

Þá var skipun annars réttargæslumanns í málinu einnig afturkölluð með úrskurði dómara í gær, eftir að í ljós kom að um sambýlismann Sigrúnar er að ræða.