Rannveig Ernudóttir brást skjótt við síðdegis í gær og stofnaði Facebook-hóp til stuðnings Báru Halldórsdóttur eftir að hún frétti að fjórir þingmenn Miðflokksins hefðu falið lögmanni að stefna Báru til yfirheyrslu fyrir héraðsdómi. Á innan við sólarhring hafa rúmlega 13.000 manns skráð sig í hópinn og Rannveig segir strauminn vera stöðugan.

„Ég held að við endum einhvers staðar á bilinu 15-20 þúsund,“ segir Rannveig í samtali við Fréttablaðið. „Við erum fjögur sem erum stjórnendur, fyrir utan Báru, og við erum bara öll stanslaust að samþykkja nýtt fólk inn.“

Sjá einnig: Fjórir þingmenn draga Báru fyrir dóm: „Hefst þá dansinn“

Rannveig segist hafa ákveðið að setja sig í samband við Báru umleið og hún frétti að fjórir þingmenn Miðflokksins, sem Bára hljóðritaði þar sem þeir sátu að sumbli á Klaustur bar, krefðust þess að hún yrði yfirheyrð fyrir dómi.

„Ég þekki hana ekki en við eigum sameiginlega vini þannig að ég hafði samband við hana til þess að athuga hvort hún hefði góðan stuðning.“ Rannveig ákvað í framhaldinu, með samþykki Báru, að stofna Facebook-hópinn Takk Bára. „Ég sagði henni að tilgangurinn væri bara að veita henni stuðning. Vera til staðar fyrir hana og safna fyrir hana pening ef þess þyrfti.“

Líflegar umræður hafa verið í hópnum og þar lýsir fólk sig meðal annars tilbúið til þess að styðja Báru fjárhagslega fari svo að hún muni sitja uppi með lögfræðikostnað eða jafnvel fjársektir.

Þá hafa rúmlega 180 manneskjur boðað komu sína í héraðsdóm á mánudaginn til þess að sýna Báru stuðning í verki og 1600 hundruð manns hafa lýst áhuga á að mæta. Einhverjar umræður eru um að fólk fjölmenni í gulum öryggisvestum að hætti franskra mótmælenda og Rannveig telur góðar líkur á að guli liturinn muni verða áberandi. „Það er alveg líklegt og mér sýnist það alveg á öllu.“

Sjá einnig: Gula Parísartískan er ekki komin til Íslands

Rannveig segist, í ljósi umræðunnar á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum netmiðlanna, að hópurinn myndi verða vinsæll. „En hversu hratt þetta gerist og hversu mikill fjöldinn er kemur svolítið á óvart.“ Hún segir að hópstjórarnir fjórir ætli að hittast á morgun og fara yfir næstu skref enda í mörg horn að líta en fyrst og fremst snúist þetta um að styðja Báru með öllum tiltækum ráðum.

Leiðindapúkarnir geta farið annað

„Við viljum helst að hún geri ekki neitt nema sinna sjálfri sér. Hugsi um að nærast og vera með vinum sínum. Hún á ekki að þurfa að svara öllum skilaboðum eða neitt þannig. Við mælum einfaldlega með því að hún leyfi öllu þessu fólki að gera hlutina fyrir sig.“

Eitthvað var um að varnarliðar hinna hleruðu þingmanna gerðu vart við sig í athugasemdum í hópnum í gær en Rannveig segist enga þolinmæði hafa fyrir slíku og hún brást við með eftirfarandi tilkynningu í morgun:

„Hópurinn hefur stækkað mjög hratt og á eftir að koma til með að stækka meira. Það þýðir að við fáum líka inn aðila sem „verja sko sína menn.“ Slíkt á ekki heima hér og verður dónaskapur af þeirra hendi tæklaður með því að eyða athugasemdum þeirra og því fólki svo vísað út. Þetta er mikið utanumhald og við þurfum að vera vakandi. Það væri því mjög vel þegið ef þið tilkynnið allt slíkt svo við fáum meldingu um slíka framkomu.“

Sjá einnig: „Ég er þessi Marvin“

Rannveig segir að henni hafi fundist við hæfi að taka þetta fram eftir að hafa fengið tilkynningar um einhverja slíka stæla í gær. „Ég er líka búin að fá einkaskilaboð frá fólki sem hefur áhyggjur af þessu, þannig að ég beindi því bara til fólks að láta okkur vita svo við getum brugðist við.“

Rannveig segist ekki vilja nein leiðindi í hópnum enda eigi „andrúmsloftið þar að vera jákvætt.“ Þeir sem vilji vera með leiðindi megi það alveg en þeir geti þá gert það annars staðar. „Þetta er æðislegt og uppljóstrarinn Bára á þetta skilið. Þetta er það sem hún á að hafa á bak við sig.“