Þrettán manns smituðust fyrir helgi af nóróveiru á Skelfiskmarkaðnum, veitingastað sem opnaði nýlega. Fólkið sem veiktist eftir að hafa borðað ostrur.

DV greinir frá þessu. Þar er haft eftir eigendum að þau harmi að fólkið hafi veikst. „Það kom upp einhver veira. Síðan við heyrðum af fyrsta tilvikinu þá höfum við verið dag og nótt að vinna í þessu,“ er haft eftir Ágústi Reynissyni, einum af eigendum staðarins. Í samtalinu er haft eftir honum að ostrurnar séu frá Húsavík og að „allur bærinn sé veikur“.

Ostrurnar hafa verið teknar af matseðli í bili. Sjúkdómseinkenni nóróveirunnar eru meðal annarra uppköst og niðurgangur.

Á Vísi er haft eftir Hrefnu Rósu Sætran, einum af eigendum, að heilbrigðiseftirlitið hafi mætt í tvígang eftir að málið kom upp og gefið staðnum toppeinkunn. Málið eig sennilega rætur að rekja til framleiðsluferlisins.