Þrettán ára gömul bandarísk stúlka, sem hvarf sporlaust í október á síðasta ári er fundin á lífi. Stúlkan hvarf sama kvöld og foreldrar hennar fundust látnir á heimili þeirra. Bandaríska alríkislögreglan(FBI) greindi frá þessu í gær og hefur verið boðað til blaðamannafundar vegna málsins. Einn er í haldi lögreglu vegna málsins.

Ekki hafði sést til hinnar þrettán ára Jayme Closs frá því í október á síðasta ári, eða frá því að foreldrar hennar fundust skotin til bana á heimili þeirra.

Í frétt breska ríkisútvarpsins um málið kemur fram að mánudaginn 15. október hafi bandaríska Neyðarlínan fengið símtal úr farsíma sem rakinn var á heimili fjölskyldunnar á sveitabæ nærri Gordon í Wisconsin. 

Ekki var hægt að greina orðaskil, einungis hávaða. Þegar lögregla kom á vettvang fundust foreldrar hennar, James og Denise Closs, látin og Jayme var á bak og burt. Lögregla hefur síðan þá leitað hennar fylgdi eftir rúmlega 400 ábendingum frá almenningi. 

„Við hétum því að koma Jayme heim og í kvöld efndum við loforðið,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni. Ekki hefur verið gefið upp hvar Jayme fannst en blaðamannafundur vegna málsins verður haldinn í dag.

Ekki hefur fengið staðfest hvort stúlkan hafi verið fangi íeða hvort hún hafi átt þátt í morðunum. Ýmsar getgátur hafa þó verið á lofti í fjölmiðlum vestanhafs, þar hefur til að mynda komið fram að unglingsstúlka hafi leitað til konu sem var að viðra hundinn sinn og tjáð henni að foreldrar sínir hefðu verið myrtir. Er stúlkan sögð hafa verið afar horuð og þegar lögregla kom á vettvang bar hún strax kennsl á Jayme. Einn var í kjölfarið handtekinn vegna málsins.