Öldunga­deild Banda­ríkja­þings mun síðar í dag taka fyrir mál Donalds Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta, en Trump er á­kærður til em­bættis­missis fyrir að hvetja til upp­reisnar í tengslum við ó­eirðirnar við banda­ríska þing­húsið þann 6. janúar síðast­liðinn.

Þeir sem fara fyrir málinu gegn Trump innan deildarinnar munu á næstu daga reyna að halda því fram að Trump hafi einn borið á­byrgð á ó­eirðunum en daginn sem þingið kom saman til að stað­festa úr­slit for­seta­kosninganna hvatti Trump stuðnings­menn sína til að arka að þing­húsinu til að mót­mæla.

Lög­manna­t­eymi Trumps mun aftur á móti halda því fram að Trump hafi ekki skipað neinum að gera neitt og að það sé ekki í sam­ræmi við stjórnar­skránna að á­kæra fyrr­verandi for­seta.

Erfitt hefur reynst fyrir Trump að ná sam­komu­lagi við lög­menn sína um hver vörn hans skyldi vera en Trump vildi að þau kæmu inn á meint svindl í kringum kosningarnar í nóvember.

Báðar hliðar hafa um það bil sex­tán klukku­stundir til mál­flutnings og er gert ráð fyrir að málið verði af­greitt mjög fljót­lega. Mögu­legt er að þing­mennirnir greiði at­kvæði um hvort sak­fella eigi Trump í næstu viku.

Söguleg réttarhöld

Meiri­hluti full­trúa­deildarinnar, þar af tíu Repúblikanar og allir þing­menn Demó­krata, á­kærði Trump form­lega 13. janúar og voru á­kærurnar sendar yfir til öldunga­deildarinnar þann 25. janúar. Til þess að Trump verði sak­felldur þurfa tveir þriðju þing­manna að sam­þykkja á­kærurnar.

Trump er fyrsti for­seti sögunnar til að vera á­kærður tvisvar en í febrúar 2020 var hann sýknaður af öldunga­deildinni fyrir að setja skil­yrði fyrir fjár­hags­að­stoð til Úkraínu árið 2019. Þá er þetta í fyrsta skipti sem réttað er yfir al­mennum borgara en Trump lét af em­bætti þann 20. janúar síðast­liðinn.

Þrátt fyrir að nokkrir þing­menn Repúblikana hafi síðast­liðna mánuði reynt að fjar­lægjast Trump eru enn margir sem standa við bakið á honum. Margir telja að Trump hafi vissu­lega framið em­bættis­brot en þar sem hann er ekki lengur for­seti sé á­kæran ekki í sam­ræmi við stjórnar­skránna.

Að­eins fimm öldunga­deildar­þing­menn Repúblikana stóðu með Demó­krötum þegar kosið var um hvort vísa ætti á­kærunni frá í lok janúar. Það er því talið veru­lega ó­lík­legt að Trump verði sak­felldur innan deildarinnar.

Óháð því hver niður­staða öldunga­deildarinnar verður er ljóst að saka­mála­rann­sóknir verði gerðar á at­burðunum þann 6. janúar og gæti Trump sjálfur átt yfir höfði sér á­kærur.