Benja­min Netanyahu, for­sætis­ráð­herra Ísraels, mætti fyrir dóm­stól í Jerúsalem í morgun en réttar­höldin vegna meintrar spillingar for­sætis­ráð­herrans eru nú hafin eftir að þeim hafði verið frestað í­trekað vegna CO­VID-19 heims­far­aldursins.

Netanyahu er á­kærður fyrir mútu­þægni, svik, og rof á trausti í þremur mis­munandi málum en hann neitar al­farið sök. Hann er meðal annars sakaður um að taka við mútum frá ríkum við­skipta­mönnum og að lofa greiðum í stað já­kvæðrar um­fjöllunar í fjöl­miðlum.

Réttar­höldin í dag ein­blíndu á hið síðar­nefnda þar sem eig­endur Beseq Is­rael Telecom voru sagðir hafa fjallað á já­kvæðan hátt um Netanyahu á Walla frétta­miðlinum gegn stjórnunar­breytingum sem skiluðu eig­endunum hundruð milljóna punda.

Sak­sóknarinn Liat Ben-Ari las upp á­kærurnar gegn Netanyahu í dóm­sal í morgun en að sögn Ben-Ari var Netanyahu við­riðinn meiri­háttar stjórn­sýslu­spillingar­mál og hafi spilað með sam­bönd sín eins og „gjald­miðil.“ Þá hafi málið verið skýrt dæmi um misbeitingu valds.

Réttar­höldin eiga sér stað í skugga fjórðu þing­kosninganna á tveimur árum í Ísrael en litið var á kosningarnar sem á­kveðna alls­herjar­at­kvæða­greiðslu um Netanyahu, sem hefur setið sem for­sætis­ráð­herra frá árinu 2009. Niður­stöður kosninganna þann 23. mars síðast­liðinn voru svipaðar og niður­stöður kosninganna þar áður og því ljóst að stjórnar­myndun verður erfið.

Reu­ven Rivlin, for­seti Ísrael, reynir nú að komast að því hvernig myndun nýrrar ríkis­stjórnar sé best háttað eftir að ríkis­stjórn Netanyahu og Benny Gantz, leið­toga Blá­hvíta banda­lagsins, féll þar sem ekki tókst að koma fjár­lögum í gegnum þingið.

Gera má ráð fyrir að Likud-flokkur Netanyahu verði meðal þeirra fyrstu til að fá stjórnarmyndunarumboð en þar sem margir eru á móti Netanyahu er óljóst hvort það beri árangur.