„Það verður hæfilega gott veðrið á kjördag,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofunni. „Ef veðrið væri of gott nennir fólk kannski ekki að kjósa heldur liggur bara í sólinni. En það má ekki heldur verða of vont, því þá hefur fólk sig kannski ekki út. Ég hefði haldið að kosningaveðrið verði akkúrat rétta veðrið til að sem flestir kjósi,“ bætir Teitur við.

Ekki skiptir minna máli að samgöngur verða greiðar í dag samkvæmt veðurspánni. Ættu öll atkvæði úti á landi að skila sér í talningu, sem stundum hefur verið áskorun.

Reyndar er það svo að veðrabrigði verða í dag til hins betra. Eftir kuldatíð hlýnar nokkuð og verður hiti á bilinu 5-10 stig. Útlit er fyrir fremur milda og góða tíð næstu daga. Einhver úkoma verður sunnanlands í dag en þurrt fyrir norðan. Vindur verður mest tæpir 10 metrar á sekúndu þannig að sæmilegar líkur eru á að kosningahárgreiðslan haldi sér þegar fólk skýst milli staða.

„Bara mjög hæfilegt veður og gott fyrir kjördag,“ segir Teitur.

Illa horfði með veður þegar Íslendingar kusu síðast, í þingkosningum síðastliðið haust. Nokkrum dögum fyrir kjördag var spáð aftakaveðri, tuttugu metrum á sekúndu. Var óttast að bitnaði mjög á kjörsókn en svo breyttist spáin og reyndist sæmilegasta veður á kjördag víðast um landið.