Svala Jóhannesdóttir, annar stofnandi Matthildar og sérfræðingur í skaðaminnkun, fór yfir sögulega þróun skaðaminnkunar á Íslandi og stöðu hennar í dag á ráðstefnu sem haldin er í dag um skaðaminnkun á Hótel Natura. Hún kallaði eftir því að öll vímuefni verði afglæpavædd, að skaðaminnkandi úrræði séu innleidd í tónlistar- og skemmtanalíf og að meðferðarúrræði verði fjölbreyttari og þröskuldurinn lægri fyrir viðhaldsmeðferð.

Þá greindi hún frá því að í gær hafi verið fyrsti fundur notenda á Íslandi í gær en samtökin vilja beita sér fyrir því að notendur fái stærri rödd í baráttunni um að innleiða skaðaminnkandi úrræði.

Fyrsta úrræðið 2009

„Þetta kemur fyrst og fremst úr grasrótinni,“ sagði Svala á ráðstefnunni um sögu skaðaminnkunar og að það hafi þurft marga úr ólíkum áttum til að koma að.

Fyrsta skaðaminnkandi úrræðið sem sett var á stofn á Íslandi var Frú Ragnheiður árið 2009. Árið eftir var svo innleidd nálaskiptiþjónusta í Konukoti neyðarskýli og árið 2012 fóru borgarverðir af stað en þeirra markmið var að byggja upp tengsl við heimilislaust fólk í Reykjavík. Árið 2014 var svo innleidd nálaskiptiþjónusta í Borgarvörðum

„Í grunninn má segja að skaðaminnkun á Íslandi komi því frá Frú Ragnheiði og Konukoti sem eru úrræði bæði rekin af Rauða Krossinum.“

Svala fór svo yfir framhaldið og nefndi sem dæmi dagsetur á vegum Hjálpræðishersins sem var úti á Granda 2014 og svo meðferðarátak árið 2016 í tengslum við lifrarbólgu C.

„Fyrsta örugga óformlega rýmið til notkunar í æð var opnað 2016,“ sagði Svala og að það hafi verið stór tímamót í sögu skaðaminnkunar á Íslandi en það var opnað í Konukoti eftir að starfsfólk fékk nóg af því að vísa konum út í kulda og frost við ótryggar aðstæður.

Geðheilsuteymi fanga stórt skref

Árið 2017 setti Frú Ragnheiður af stað inngrip fyrir þau sem sofa úti og í kjölfarið tókst gott samstarf með Frú Ragnheiði og Reykjavíkurborg hvað varðar heimilislausa og hófst þá vinna við að koma í veg fyrir það að fólk þyrfti að gista í bílakjöllurum eða úti í mjög erfiðum aðstæðum.

Hún sagði það einnig hafa verið stóran sigur þegar geðheilsuteymi fanga var sett á stofn árið 2019 og sama ár var fyrsta frumvarpið lagt fram á þingi um afglæpavæðingu en það var lagt fram af Halldóru Mogensen þingkonu Pírata.

Árið 2020 var svo samþykkt frumvarp um rekstur neyslurýma en eftir það opnaði bæði Skjólið sem er dagsetur fyrir konur, þar sem má finna óformlegt öruggt rými til að notkunnar í æð og svo árið 2022 opnaði Ylja, sem er fyrsta formlega örugga neyslurýmið á Íslandi og er rekið af Rauða krossinum.

Há tíðni dauðsfalla vegna ofskammta

Á þessu ári byrjaði Frú Ragnheiður einnig að dreifa Naloxone og seinna samþykkti heilbrigðisráðuneytið að greiða fyrir allt Naloxone á landinu.

Svala sagði stöðuna í dag vera þannig að hér sé há tíðni dauðsfalla vegna ofskammta, hér séu of margir sem glíma við langvarandi heimilisleysi og að það hafi mikil áhrif á heilsu þeirra. Þá sagði hún skort á geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólk með mikinn vímuefnavanda einnig skapa mikinn vanda.

Svala fjallað einnig um þær áskoranir sem eru fram undan og nefndi sem dæmi mikilvægi þess að setja upp nálaskiptaþjónustu í fangelsum og að verkefnum eins og Naloxone dreifingin sé stýrt af notendum. Þá sagði hún að þörf væri á staðbundnu neyslurými sem væri opið allan sólarhringinn og að sett sé af stað lágþröskulda og fjölbreytt viðhaldsmeðferð og að Naloxone verði lausasölulyf.

Þá sagði Svala að í grunninn snúist þetta um að afglæpavæða fólk sem notar vímuefni og nefndi að mikilvægt væri að innleiða hugmyndafræðina og verkfærin í tónlistar- og skemmtanalíf.

„Rétta og eina leiðin er að regluvæða öll vímuefni,“ sagði Svala og að það sama ætti að gilda um öll vímuefni, eins og regluverkið er með áfengi.

Ráðstefnan fer fram á Hótel Natura í dag og er á vegum samtakanna Matthildur – skaðaminnkunarsamtökin. Fjallað verður um skaðaminnkun á Íslandi og farið yfir stöðuna á skaðaminnkandi starfi á Íslandi og skaðaminnkandi verkefni og kynnt úrræði.

Auk þess munu þau Arild Knutsen leiðtogi The Association for Humane Drug Policies í Noregi, halda erindi um notendahreyfinguna, stöðu skaðaminnkunar í Noregi og þær miklu umbætur sem hafa átt sér staði í vímuefnastefnu landsins og Matthildur Jónsdóttir Kelly, sem samtökin eru nefnd í höfuðið á, vera heiðruð.

Fréttin hefur verið uppfærð klukkan 10:59 þann 9.9.2922.