Minnstu mátti muna að hinn gríski Antonis Mavropou­los hefði verið um borð í Boeing 737 MAX 8 vél flug­fé­lagsins Et­hiopian Air­lines sem fórst í gær. Alls létu 157 manns lífið þegar vélin hrapaði ör­fáum mínútum eftir flug­tak. 

„Ég horfði á eftir síðustu far­þegunum fara í gegnum hliðið,“ segir Mavropou­los í sam­tali við Associa­ted Press. Hann var á leiðinni á til Naíró­bí í Ke­nía á um­hverfis­ráð­stefnu en rétt missti af fluginu. 

Skráði ekki inn töskuna

„Ég kvartaði eins og maður gerir yfir­leitt í svona að­stæðum. En þau voru mjög lið­leg og komu mér fyrir í öðru flugi,“ segir Mavropou­los sem rekur endur­vinnslu­fyrir­tæki í heima­landi sínu. 

Hann segist hálf­partinn enn vera að átta sig á því sem gerðist og hversu ná­lægt því hann var að farast með vélinni. „Ég er í al­gjöru á­falli – eyði­lagður raunar – vegna þeirra sem létust.“ 

Mavropou­los var í tengi­flugi og hafði á­kveðið að innrita töskuna sína ekki þar sem hann vissi að það myndi standa tæpt hvort hann myndi ná. Vélin hefði líkast til beðið eftir honum hefði hann verið búinn að innrita töskuna sína. Hann kveðst af­skap­lega heppinn að vera enn á lífi en býst við því að erfitt muni reynast honum að lifa með þessu. 

Þrjár vélar af sömu tegund á Íslandi

Líkt og fyrr segir létust 157 far­þegar og á­höfn vélarinnar. Um er að ræða annað skipti á fimm mánuðum sem vél af gerðinni Boeing 737 MAX 8 ferst. Vél Lion Air hrapaði yfir Indónesíu í lok októ­ber með þeim af­leiðingum að 189 manns létust. 

Margar spurningar hafa vaknað upp í tengslum við tegund vélarinnar, sem Boeing fram­leiðir, og hafa flug­fé­lög víða kyrr­sett slíkar vélar. Kín­versk flug­mála­yfir­völd hafa sömu­leiðis kyrr­sett allar slíkar vélar þar í landi. 

Icelandair er með þrjár slíkar vélar í sínum flota en for­svars­menn telja ekki á­stæðu til að kyrr­setja þær að svo stöddu. Fylgst verði grannt með rann­sókn málsins og því hvað olli slysinu.