Nokkrir hátt settir Repúblikanar sem þjónuðu Geor­ge W. Bush fyrrum Banda­ríkja­for­seta upp úr alda­mótum hafa nú sagt skilið við flokkinn vegna á­hrifa Donalds Trump. Repúblikanar sem Reu­ters ræddi við segjast ekki lengur þekkja flokkinn eftir Trump þar sem hann er gríðar­lega klofinn.

„Repúblikana­flokkurinn eins og ég þekkti hann er ekki lengur til. Ég myndi kalla það sér­trúar­flokk Trumps,“ sagði til að mynda Jimmy Guru­lé, ráðu­neytis­stjóri fjár­mála­ráðu­neytis ríkis­stjórnar Bush. Þá sagði Kristop­her Purcell, sam­skipta­full­trúi Hvíta hússins í tíð Bush, að sí­fellt fleiri væru að yfir­gefa flokkinn á hverjum degi.

Lands­nefnd Repúblikana­flokksins vildi lítið tjá sig um málið í sam­tali við Reu­ters og bentu á við­tal Fox frétta­stofunnar við for­mann nefndarinnar, Ronna McDaniel. Þar gerði McDaniel lítið úr klofningnum og lofaði að Repúblikana­flokkurinn myndi koma saman á ný.

Bundu vonir við að flokkurinn myndi fjarlægjast Trump

Að því er kemur fram í frétt Reu­ters um málið vonuðust margir til að flokkurinn kæmi til með að fjar­lægjast Trump og stefnu hans eftir for­seta­kosningarnar í fyrra, þar sem hann neitaði að sætta sig við úr­slitin, og ó­eirðirnar við þing­húsið í Was­hington-borg þann 6. janúar síðast­liðinn.

Fjöl­margir þing­menn Repúblikana standa þó enn með Trump, bæði innan full­trúa- og öldunga­deildar Banda­ríkja­þings, og er það talið mjög ó­lík­legt að Trump verði sak­felldur innan öldunga­deildarinnar fyrir að hvetja til upp­reisnar í tengslum við ó­eirðirnar.

Rosario Marin, fjár­mála­ráð­herra Banda­ríkjanna í tíð Bush, sagði ljóst að ef flokkurinn heldur á­fram að vera flokkur Trumps þá verði ekki aftur snúið. „Nema að öldunga­deildin sak­felli hann, og losi sig við Trump krabba­meinið, þá munu mörg okkar ekki snúa aftur til að kjósa leið­toga Repúblikana.“

Skammur tími til stefnu

Öldunga­deildin mun taka fyrir málið gegn Trump þann 9. febrúar næst­komandi en til þess að hann verði sak­felldur þurfa 67 þing­menn að greiða at­kvæði gegn Trump. Þar sem Demó­kratar eru með 50 þing­menn þyrftu 17 þing­menn Repúblikana að kjósa með þeim.

Sjálfur hefur Trump ekki átt sjö dagana sæla en hann þurfti að ráða nýja lög­menn eftir að teymi hans sagði sig frá málinu í gær eftir ósætti um hvernig málsvörn hans skyldi vera háttað. Nýja teymið hans hefur þannig stuttan tíma til að undir­búa máls­vörn Trumps.