Mikil ólga er nú meðal Repúblikana í Banda­ríkjunum vegna hús­leitar sem al­ríkis­lög­reglan FBI gerði á heimili Donalds Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta, í leit að opin­berum trúnaðar­skjölum sem hann hafði með sér eftir að hann lét af for­seta­em­bætti. Sam­kvæmt lands­lögum ber að skila slíkum gögnum til hins opin­bera að lokinni em­bættis­tíð. Leitin var gerð á Mar-a-Lago-óðalinu í Flórída og FBI-liðar eru sagðir hafa tekið með sér nokkra kassa af skjölum.

Stuðnings­menn Trumps eru æfir yfir að­gerðum al­ríkis­lög­reglunnar, sem þeir segja að jafn­gildi vopna­væðingu ríkis­stjórnar Joes Biden for­seta á dóms­mála­ráðu­neytinu til þess að koma höggi á pólitískan and­stæðing sinn. Kevin Mc­Cart­hy, leið­togi þing­flokks Repúblikana­­flokksins í full­trúa­deild Banda­ríkja­þings, hét því að ef Repúblikanar komast í meiri­hluta eftir kosningar í haust muni hann hefja rann­sókn á Merrick Garland dóms­mála­ráð­herra.

Sumir stuðnings­menn Trumps vildu ganga enn lengra. Staf­ræna texta­skoðunar­kerfið Data­minr greindi stökk í fjölda Twitter-færslna sem merktar voru með orðunum „Civil War“, eða borgara­styrj­öld, eftir að hús­leitin hjá Trump var gerð. „Á morgun verður stríð,“ skrifaði Ste­ven Crowder, í­halds­samur þátta­stjórnandi með 1,9 milljónir fylgj­enda á Twitter. „Sofið vel.“ „Landið á barmi borgara­styrj­aldar???“ skrifaði Nicholas J. Fuentes, í­halds­samur hlað­varps­stjórnandi sem styður Trump.

Ríkis­stjórn Bidens segist ekki hafa vitað að hús­leitin væri yfir­vofandi. Lík­legt er að for­stjóri FBI, Christop­her Wray, sem var settur í em­bætti af Trump, hafi þurft að gefa leyfi sitt fyrir að­gerðinni. Bruce Rein­hart, héraðs­dómari í Flórída, undir­ritaði leitar­heimild fyrir henni.