Þremenningarnir sem handteknir voru vegna mótmæla við Alþingi í dag var sleppt úr haldi rétt fyrir klukkan fimm í dag. Þremenningarnir voru handteknir eftir að þau hlýddu ítrekað ekki tilmælum lögreglunnar um að hætta að hindra aðgengi að Alþingishúsinu.

Sjá einnig: Þrjú handtekin á mótmælum við Alþingi

Eftir að mótmælendur voru handteknir við Alþingi fluttu mótmælendur sig að lögreglustöðinni þar sem þau biðu þess að þau sem handtekin voru yrði sleppt úr haldi. 

Sjá einnig: Mót­mæla nú fyrir framan lög­reglu­stöðina

„Þetta átti aldrei að blása svona upp. Við héldum að við værum algerlega innan okkar marka með lýðræðislegan rétt til að mótmæla,“ segir Elínborg Harpa Önundardóttir, aðgerðasinni í samtökunum No Borders og ein mótmælenda, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hún segir að mótmælendurnir sem hafi verið handteknir hafi allir neitað sakargiftum. Að því loknu hafi verið framkvæmd skýrslutaka og mótmælendum síðan sleppt úr haldi.

Hún býst fastlega við því að þau munu halda mótmælum sínum áfram næstu daga. „Við ætlum að halda baráttunni áfram,“ segir Elínborg.