Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, vill ekki tjá sig um opið bréf Kára Stefánssonar til hans og háskólaráðs sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
Jón Atli segir málið vera viðkvæmt og kveðst hafa sagt allt það sem hann hefur að segja um meintan ritstuld Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra.
Í opnu bréfi gagnrýndi Kári Stefánsson þau ummæli rektors að siðanefnd Háskóla Íslands bæri ekki að rannsaka meintan ritstuld seðlabankastjóra í ljósi þess að hann væri í ólaunuðu leyfi frá störfum sínum við hagfræðideild háskólans.
„Þetta voru dapurleg mistök af hálfu Jóns Atla sem háskólaráði ber að leiðrétta. Meðan Ásgeir er handhafi stöðu við Háskólann hlýtur skólinn að gera þá kröfu til hans að við fræðistörf sín þá haldi hann sig innan þeirra marka sem eru sett af siðareglum skólans og hefðum fræðasamfélagins,“ segir í bréfi Kára.
Siðanefnd Háskóla Íslands sagði af sér í byrjun febrúar vegna málsins en hún hafði talið sig geta fjallað efnislega um ritstuldarmálið á þeim grundvelli að ráðningarsamband sé fyrir hendi milli Ásgeirs Jónssonar og háskólans þrátt fyrir að hann sé í launalausu leyfi.