Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, hefur brugðist við fréttaflutningi af starfslokum Kristins Sigurjónssonar, lektors við tækni- og verkfræðideildskólans, með yfirlýsingu þar sem hann tekur fram að „orðræða sem hvetur til mismununar eða haturs á grundvelli kyns, kynhneigðar, fötlunar eða kynþáttar er ekki liðin innan háskólans.“

Ari Kristinn ítrekar að stjórnendur HR tjá sig ekki um málefni eða starfslok einstakra starfsmanna en bendir á að allir sem nema og starfa innan veggja háskólans verði að geta „treyst því að komið sé fram við þá af virðingu og að verk þeirra séu ætíð metin af sanngirni.“

Þá lætur Ari Kristinn þess getið að „rektor, deildarforsetar og aðrir stjórnendur HR taka ákvarðanir og bera ábyrgð á ráðningum og starfslokum starfsmanna háskólans. Slíkar ákvarðanir byggja á faglegu mati á hagsmunum háskólans, nemenda og starfsmanna, þar sem horft er á heildarmynd, en ekki einstök atvik.“

Háskólaþingmaður gagnrýnir HR

Ólafur Ísleifsson, doktor í hagfræði, þingmaður Flokks fólksins og dósent við Háskólann á Bifröst og framkvæmdastjóri gæðamála við skólann 2014–2017, telur HR hins vegar kominn út á vafasamar brautir.

Hann segir á Facebook að „háskóli sem virðir ekki tjáningarfrelsi og akademískt frelsi starfsmanna sinna rís ekki undir nafni sem slíkur.“

Þá spyr hann hvort allir menn séu ekki „frjálsir orða sinna en verði að bera ábyrgð á þeim fyrir dómi?“ Ólafur svarar síðan sjálfum sér og segir: „Þarna er takmörkunin. Tek enga afstöðu til ummæla sem nú er helst vitnað til, þekki ekki forsögu eða samhengið sem þau kunna að hafa fallið í. En tjáningarfrelsið nær líka til óvinsælla skoðana og þeirra skoðana sem maður getur ekki sjálfur fellt sig við.“Það er fráleitt að háskólar setji sér siðareglur sem augljóslega stangast á við stjórnarskrá. Það virðist HR hafa gert af einhverjum ástæðum.“