„Við vitum að þetta er ansi víðfeðmt og það er margt sem við getum gert betur. Ég vil samt taka fram að við höfum bætt mjög margt á undanförnum árum. En það er mjög margt eftir,“ segir Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands í samtali við Fréttavaktina á Hringbraut.
„Það kemur mér ekkert á óvart að við þurfum að taka til hendinni í þessum málum sem öðrum,“ segir hann. „Ég vil geta þess að Háskóli Íslands leggur áherslu á jafnrétti og það er eitt af gildum skólans. Þessi skýrsla er unnin af þessi ráði um málefni fatlaðs fólks, til þess að safna sögum um það hvar við getum gert betur.“
Jón Atli segir skólann hafa sérstakar reglur um sérúrræði og viðtalsrannsóknin sé liður í að safna upplýsingum um stöðuna til að bregðast við.
Þann 4. júní birtist forsíðuviðtal í helgarblaði Fréttablaðsins þar sem fyrrverandi nemandi Háskóla Íslands, núverandi formaður Sjálfsbjargar, Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir, sagði farir sínar ekki sléttar. Henni hafi verið gert að skipta um námsbraut vegna aðgengismála, en og hún lýsti alvarlegum göllum á aðbúnaði og þjónustu háskólans á námstímanum 2018.
Eldri byggingarnar erfiðar
„Ég þekki ekki fleiri dæmi og ég get ekki svarað fyrir það,“ segir Jón Atli aðspurður um sögu Margrétar Lilju og hvort að staðan hafi breyst. „Það er mjög leitt að heyra þessa sögu. Varðandi aðgengi, það er hægt að hugsa það frá mörgum hliðum. Ef við tölum um aðgengi að byggingum, erum við búin að vinna mjög mikið að því að bæta það. Það eru sérstaklega eldri byggingarnar sem eru erfiðar.“
Jón Atli segir nýjar byggingar háskólans lúta algildri hönnun og segir hann ráð um málefni fatlaðs fólks við háskólann koma að því hvernig byggingarnar séu skipulagðar. „Til að mynda, þegar við erum að skipuleggja Sögu sem er nýbygging hjá okkur, erum við í því að tryggja að aðgengismálin séu í lagi,“ segir hann.
En þegar aðgengi hefur verið bætt, eru þá ferlar til staðar til að upplýsa fatlaða nemendur um bætt aðgengi?
„Það má eflaust gera betur. Upplýsingagjöf er alltaf erfið. Við höfum lagt áherslu á að bæta hana, en við finnum að það er erfitt að koma upplýsingum bæði til nemenda og starfsfólks. Oft notum við tölvupóstinn, sumir lesa hann ekki og þess háttar. Við getum örugglega gert betur þarna. En þetta er þörf brýning. Ég fagna því að fá þetta fram og fagna umræðunni, líka vegna þess að við viljum gera betur.“
Í heimsfaraldrinum var megninu af kennslu komið í rafrænt fjarkennsluform. Fjarkennsluformið var dregið til baka að faraldrinum loknum og hefur fötluðum nemendum verið synjað um þjónustu á borð við upptökur af fyrirlestrum, sem aðgengilegir voru ófötluðum nemendum í covid. Aðspurður hvers vegna fatlaðir nemendur hafa ekki lengur aðgang að þjónustunni sem ófatlaðir nemendur fengu að njóta með skömmum fyrirvara, svarar Jón Atli:
„Þetta er talsvert flókið mál. Við gerðum greinarmun á þessari rafrænu kennslu sem var í covid og fjarkennslu,“ segir rektor. „Við skilgreinum fjarkennslu þannig að það þarf svo margt að vera í lagi til að það uppfylli þau skilyrði.“
Kennaranna að ákveða sjálfir
Hann segir stúdenta við Háskóla Íslands hafa lagt mikla áherslu á að taka upp fyrirlestra löngu áður en til heimsfaraldursins kom. „Við þurftum svo sannarlega að gera þetta í covid. En þetta er þannig að kennararnir og deildirnar skipuleggja kennsluna og það er þeirra að ákveða hvort að þeir vilji hafa upptökur,“ segir hann.
„Við vorum að tala um þessi sérúrræði og í mörgum tilvikum kemur það til deildarinnar. Það þarf síðan að fara yfir það með kennurum þegar um fatlaða einstaklinga er að ræða,“ segir hann.
„Varðandi kennsluna almennt geta verið allskonar sjónarmið sem koma upp, varðandi hvort að fyrirlestrar eru teknir upp og hversu lengi þeir eru til reiðu og þess háttar. Stundum sjá kennarar fram á það að nemendur hreinlega hætta að koma í tíma. Háskólar eru samfélag og ef nemendur mæta ekki þýðir það að kennslan smám saman brotnar niður. Þetta er flóknara en að segja að það sé bara af eða á.“
Hugmyndin er að þetta grafi undan gæðum kennslunnar?
„Í sumum tilvikum. En það eru margir kennarar sem gera þetta og telja að þetta gangi. En við erum með kannanir og sjáum að það eru ekki margir nemendur sem kynna sér upptökurnar. En ég skil alveg þegar við erum að tala um fatlaða einstaklinga sem eiga erfitt með að koma, að þetta skipti máli.“
Jón Atli tók þátt í umræðu um niðurstöður rannsóknarinnar á jafnréttisdögum fyrir skömmu. „Eins og ég skil þetta, og hlutverk háskólans, þá reyna kennarar að koma til móts við fatlaða einstaklinga. Það eru ákveðin vonbrigði að það sé ekki hægt að koma til móts við þá hvað þetta varðar. Það kemur alltaf þetta, með akademíska frelsi kennarans og síðan með hitt gildið sem við höfum sem er jafnréttið. Við þurfum að tryggja það að þetta gangi upp.“
Það kemur alltaf þetta, með akademíska frelsi kennarans og síðan með hitt gildið sem við höfum sem er jafnréttið. Við þurfum að tryggja það að þetta gangi upp.
Samræmist það stefnu skólans í jafnrétti að kennarar geti hreinlega ákveðið að taka ekki tillit til fatlaðra nemenda, eða að þeir fái að skilgreina skyldur sínar sjálfir?
„Það er málefni deildarinnar að skoða það. Eins og við erum að tala um nemendaráðgjöf, sem hét áður námsráðgjöf, hún kemur inn í þetta með þessi sértæku úrræði þegar nemendur þurfa á því að halda. Þá er það bara samtal við deildina og kennarana. Þetta er bara eitthvað sem við þurfum að vinna með. Ég get ekki sagt af eða á, kennslan er mjög breytileg eftir greinum og deildum.“
Er það fötluðu nemendanna sjálfra að tryggja aðgengi að náminu?
„Þetta er góð spurning. Til þess að þetta væri þannig að við hefðum algilda hönnun allstaðar, þyrftum við að leggja miklu meiri vinnu i þetta sem kostaði heilmikið. Auðvitað viljum við vera þar. En við getum ekki á þessum tímapunkti sagt að við séum þar.“
Er þetta þá spurning um fjármagn?
„Að hluta til, já já. Það þarf heilmikla vinnu og fjármagn til þess að tryggja þetta. En ég vil ítreka að Háskóli Íslands hefur lagt mjög mikla áherslu á jafnrétti til náms og hlutirnir eru í miklu betra standi núna en þeir voru fyrir nokkrum árum. Varðandi aðgengi og byggingar og þess háttar, við erum alltaf með augun á þessu. Við erum að breyta mjög miklu og ég get farið yfir það hvernig því hefur verið breytt á undanförnum árum. Þetta er verkefni sem klárast ekki á næstu dögum.“
Aðspurður um miðlægan stað á vef háskólans þar sem hægt er að fylgjast með úrbótum, svarar Jón Atli:
„Við erum með jafnretti.hi.is. Ég vil nefna eitt sérstaklega. Eitt af því sem ég gerði þegar ég varð rektor var að setja jafnréttismálin á efsta stig. Jafnréttisfulltrúa inn á rektors-skrifstofu sem er nýtt. Við reynum að miðla eins miklu og hægt er. Ég held að það sé hægt að skoða þennan vef eða leita til jafnréttisfulltrúa Háskóla Íslands. En svo getum við örugglega gert miklu betur varðandi upplýsingagjöfina eins og við höfum talað um.“