Brynhildur Karlsdóttir, tónlistarkona og fyrrverandi nemandi Menntaskólans við Hamrahlíð, fékk símtal frá Steini Jóhannssyni, rektor skólans, í morgun þar sem hann bað hana afsökunar fyrir hönd skólans.

„Stundum er það þannig að maður uppnefnir fólk í morgunsárið og hrósar því með kaffinu, þetta var að minnsta kosti vel gert hjá Steini rektor, að hringja í Brynhildi mína og biðja hana afsökunar fyrir hönd skólans,“ segir Matthías Tryggvi Haraldsson maki Brynhildar á Facebook-síðu sinni.

Brynhildur tjáði sig um mál MH í pistli á vef Vísis í gær en þar sagði hún fá reynslu sinni þegar hún var sautján ára nemandi í MH og henni var nauðgað af vini sínum og skólabróður. Þegar hún hafi loks náð að safna kjarki til að tilkynna skólayfirvöldum hafi hún mætt lokuðum dyrum. Brynhildur ákvað að tjá sig um málið vegna byltingar sem núverandi nemendur skólans hafa stofnað til vegna aðgerðaleysis skólastjórnenda við tilkynningum þolenda vegna meints kynferðisofbeldi.

Nemendur kæra sig ekki um að stunda nám í skólanum innan um meinta gerendur kynferðisbrotamála og krefjast þess að skólastjórnendur stígi fast til jarðar í málunum, sem hingað til virðist ekki hafa verið gert. Þá krefjast nemendur að skólastjórnendur hlusti á þolendur.

Matthías tjáði sig jafnframt um málið í pistli á vef Vísis í morgun. Hann segir byltinguna mikilvæga og nauðsynlegt sé að hlusta á þá nemendur sem keyri hana áfram af hugrekki og réttsýni. „Krafan er skýr og hávær um að stjórnendur skólans stigi fast til jarðar og standi með þolendum. Þess vegna eru vonbrigðin, sem ég finn í dag, ólýsandi,“ segir Matthías meðal annars í pistli sínum en hann fór ekki fögrum orðum um starf stjórnenda skólans.  

„Klúðrið hefur bersýnilega gengið á samfleytt í meira en tíu ár svoleiðis að vanhæfni skólastjórnenda bergmálar í sársaukaþrungnum sögum fjölda þolenda, þar á meðal Brynhildar minnar, Elísabetar vinkonu sem tók sitt eigið líf og enn í dag í mótmælum nemenda,“ heldur Matthías áfram.

Matthías minnist einnig á svör skólastjórnenda vegna málsins en líkt og fram hefur komið héldu stjórnendur skólans fund með nemendum í gær.

Nemendur voru ósáttir með fundinn en þau fengu ekki að spyrja neinna spurninga vegna málsins og þá fannst þeim engar almenningar skýringar hafa verið gefnar.

„Þeir neita að tjá sig um þetta opinberlega og snubbótt yfirlýsing um verkferla er enginn sigur. Þá gat Steinn rektor varla nefnt orðið kynferðisofbeldi á nafn á skólafundinum, sem átti að vera sönnun þeirra um verkferla og fagmennsku. Þess í stað var rektorinn að sögn áreiðanlegra heimildarmanna minna „eins og kúkur“. Skólastjórnendur MH, girðið ykkur í brók, biðjið þolendur afsökunar eins og þið meinið það eða víkið úr starfi,“ segir Matthías að lokum en nú hefur Steinn rektor hringt í Brynhildi og fjölskyldu hennar til að biðjast afsökunar fyrir hönd skólans.

Ekki náðist í Brynhildi við vinnslu fréttarinnar.