„Staðan er þannig að núverandi rekstrarfé mun klárast í febrúar á næsta ári,“ segir Marta Kristín Jónsdóttir, staðgengill framkvæmdastjóra Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis (KAON).

Hefur félagið sent úr neyðarkall til fyrirtækja, sveitarfélaganna í Eyjafirði og Krabbameinsfélags Íslands, vegna stöðunnar. Akureyrarbær og Fjallabyggð gátu ekki liðsinnt félaginu vegna eigin fjárhagserfiðleika en enn eiga eftir að koma svör frá öðrum. Krabbameinsfélag Íslands hefur staðið þétt við bakið á KAON hingað til.

Félagið var stofnað árið 1952 og sinnir öllu Eyjafjarðarsvæðinu, frá Siglufirði og allt austur í Fnjóskadal í Þingeyjarsýslum. Félagið veitir þeim sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendum þeirra stuðning, meðal annars í formi viðtala hjá fagaðilum og námskeiða. Voru skráðar komur, viðtöl og önnur samskipti við félagið 695 á síðasta ári, og voru um 80 prósent af þeim sem leituðu til félagsins búsett á Akureyri og 20 í nágrannasveitarfélögunum.

Marta segir að í upphafi árs hafi verið búist við sæmilegu ári rekstrarlega séð. En eftir að faraldurinn skall á hefur sáralítill peningur komið inn, hvorki frá fyrirtækjum né einstaklingum. „Það hafa komið einn eða tveir styrkir, féð sem við reiknuðum með vegna Reykjavíkurmaraþonsins er langt undir væntingum,“ segir hún.

Engin önnur sambærileg þjónusta er fyrir krabbameinsgreinda í Eyjafirði. Þjónustan hefur ekki verið skert en álagið er meira þar sem ekki var ráðið í stöðu ráðgjafa sem hætti. „Fólki hefur fjölgað hérna núna í september og við viljum vera til staðar. Þess vegna sendum við út þetta neyðarkall. Krabbamein fer ekki í pásu þó að heimsfaraldur sé í gangi,“ segir Marta.

„Ég reyni að hugsa ekki þangað,“ segir hún aðspurð um hvort félagið sjái fram á að þurfa að skera þjónustuna eða hugsanlega loka ef ástandið helst óbreytt.