Rekstrarafkoma ríkissjóðs í fyrra var jákvæð um 42 milljarða króna.

Þetta kemur fram í uppgjöri ríkisreiknings fyrir árið 2019 sem birt var í dag og sent Alþingi.

Til samanburðar skilaði ríkið 84 milljarða króna afgangi árið 2018.

Tekjur í fyrra námu samtals 830 milljörðum króna og voru rekstrargjöld 809 milljarðar króna. Hrein fjármagnsgjöld voru neikvæð um 57 milljarða en hlutdeild í afkomu félaga í eigu ríkisins jákvæð um 78 milljarða.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að á fyrstu mánuðum ársins 2019 hafi strax verið blikur á lofti í íslensku efnahagslífi vegna falls flugfélagsins WOW air.

Gjaldþrotið hafði veruleg áhrif á ferðaþjónustuna og leiddi til samdráttar í vexti þessarar undirstöðuatvinnugreinar. Er versnandi afkoma ríkissjóðs milli ára sögð einkennast af beinum og óbeinum áhrifum minni efnahagsumsvifa og aukins atvinnuleysis.

Í tilkynningunni er haft eftir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, að árið hafi markað lok lengsta hagvaxtarskeiðs Íslands sem hafi varið samfellt í níu ár.