Rekstrarstjóri Beyond Meat, sem er einn stærsti framleiðandi staðgengla kjöts úr plöntum [e. plant based meat substitutes], var handtekinn um helgina fyrir að bíta manneskju eftir leik hjá háskólaruðningsliði Arkansas.

Maðurinn sem um ræðir, Doug Ramsey, var kærður fyrir líkamsárás en var sleppt að yfirheyrslum loknum.

Að sögn bandarískra fjölmiðla lenti maðurinn í útistöðum við annan mann í bílastæðahúsi eftir smávægilegan árekstur fyrir utan völl Arkansas Razorbacks. Ramsey kýldi manninn og beit hann í nefið.

Á vef AP kemur fram að hann hafi einnig verið ákærður fyrir að vera með hótanir um hryðjuverk í kjölfar árásarinnar.

Beyond Meat var um tíma verðmetið á 13,4 milljarði Bandaríkjadala en fyrirtækið hagnaðist um 406 milljónir dala árið 2020.

Vörur fyrirtækisins fást í áttatíu löndum víðsvegar um heiminn, meðal annars á Íslandi og eru notaðar af skyndibitakeðjum líkt og McDonalds. Fyrirtækið greindi frá því í dag að Ramsey hafi verið vikið úr störfum um óákveðinn tíma.