Hjörtur Hjartarson, íþróttafréttamaður hjá Sýn, hefur verið sendur heim frá Rússlandi vegna óæskilegrar hegðunar á HM. Hjörtur mætti ölvaður á blaðamannafund íslenska landsliðsins í gær en auk þess hefur Ríkisútvarpið lagt fram kvörtun á hendur Hirti vegna áreitis í garð Eddu Sifjar Pálsdóttur íþróttafréttamanns.

Hjörtur segist í samtali við Fréttablaðið hafa hrasað eftir erfiða baráttu við áfengissjúkdóminn en hann fór í áfengismeðferð árið 2014.

„Upp tóku sig gömul veikindi sem ég hafði haldið í skefjum í rúm fjögur ár. Ég hrasaði illilega sem leiddi af sér óæskilega hegðun. Ég gleymdi mér í þessari stöðugu baráttu við áfengissjúkdóminn og fékk það harkalega í bakið. HM ferð mín var því stytt um þrjá daga enda engin leið til að takast á við veikindi mín hér í Rússlandi,“ segir Hjörtur.

Framkoman „óásættanleg“

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að Hirti hafi verið gert að fara heim. „Framkoma hans á blaðamannafundinum var óásættanleg, en í rauninni höfum við ekki meira um málið að segja. Það eru hans yfirmenn sem taka ákvörðun um að kalla hann heim,“ segir Klara, sem vildi ekki tjá sig frekar um málið.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins lét Hjörtur lítið fyrir sér fara á blaðamannafundinum á sunnudag en var að sögn viðstaddra sjáanlega drukkinn. Í framhaldinu hafi Hjörtur átt í óeðlilegum samskiptum við Eddu Sif, sem kallaði til Víði Reynisson, öryggisstjóra KSÍ.

Hjörtur segir að hann hafi ekkert áfengi drukkið þann dag sem blaðamannafundurinn átti sér stað. Hann hafi hins vegar drukkið kvöldið áður.

„Vanlíðanin óbærileg“

„Aukinheldur gat ég ekki boðið samferðamönnum mínum upp á áframhaldandi veru hér. Það er erfitt að vera hér í þessum sporum og vanlíðanin óbærileg. Ég hef ekki snert áfengi eftir þetta eina kvöld og þannig mun ég hafa það áfram. Ég mun klífa þennan skafl sem ég er búinn að koma mér í,“ segir Hjörtur.

Ekki hafa fengist upplýsingar um hvort Edda Sif hafi lagt fram kæru á hendur Hirti, en hún kærði hann árið 2012 vegna líkamsárásar, þegar þau störfuðu saman hjá Ríkisútvarpinu. Edda Sif dró kæruna svo til baka eftir að hafa náð samkomulagi við Hjört, þar sem hann viðurkenndi fulla ábyrgð og baðst afsökunar. Hirti var sagt upp störfum eftir atvikið.

Hjörtur færði sig í kjölfarið til Stöðvar 2 en var sendur í leyfi árið 2014 eftir að hafa veist að samstarfsmanni sínum. Hann sendi frá sér yfirlýsingu í framhaldinu þar sem hann sagðist eiga við áfengisvanda að stríða og muni leggjast inn á Vog. „Engum er um að kenna nema mér sjálfum. Það er kristaltært. Persónubrestir og breyskleiki hafa komið mér á þann stað sem ég er núna. Ég iðrast óendanlega fyrir það sem ég hef gert öðrum og ekki síður sjálfum mér,“ skrifaði Hjörtur í yfirlýsingu sinni.

Björn Víglundsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Sýn, staðfesti að Hjörtur væri á heimleið að kröfu fyrirtækisins. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið, né upplýsa um hvort Hirti verði vikið frá störfum.