Ingunn Lára Kristjánsdóttir
Föstudagur 14. febrúar 2020
18.30 GMT

Írönsku hjónin Ardes­hir og Shokoufa og sonur þeirra Maní verða send úr landi á mánu­daginn 17. febrúar næst­komandi þrátt fyrir gögn sem sýna fram á það gæti stofnað lífi þeirra í hættu. Samtökin No Borders vöktu athygli á sögu Maní og var fjallað um hann í frétt Stundarinnar í morgun.

„Okkur líður alls ekki vel. Við erum skelfingu lostin. Maní, sonur minn, vill alls ekki fara til baka. Hér hefur hann fundið fyrir öryggi og eignast vini,“ segir Shokoufa, móðir Maní, en hann er trans strákur og finnst hann geta lifað sam­kvæmt sjálfum sér hér á landi. Það hafi hann ekki getað gert áður en hann flutti til Ís­lands í fyrra.

„Honum byrjaði að líða betur eftir að við fluttum hingað,“ segir Shokoufa og segir fjöl­skylduna ör­væntingar­fulla vegna málsins. Full­trúar Út­lendinga­stofnunar sækir fjöl­skylduna klukkan 5:30 á mánu­dags­morgun og er flugið þeirra klukkan 7:30.

„Við getum hvorki borðað né sofið, við erum svo stressuð,“ segir Shokoufa. „Við erum ekki vont fólk. Við komum hingað til að leita hjálpar.“

Maní er 17 ára strákur. Hann er trans og því í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Handtekinn af byltingarvörðum og pyntaður í 48 tíma

Ardes­hir er svo­kallaður reiki­meistari og sér um að heila fólk og notar hug­leiðslu til að hjálpa fólki að tengjast Guði sínum. Að mati Írans er það guð­last. Herinn hand­tók læri­meistara Ardes­hir og hefur haldið honum í mörg ár þar sem hann hefur þurft að sæta pyntingum.

Shokoufu minnist þess þegar eigin­maður hennar var settur í varð­hald í 48 klukku­stundir þar sem hann sætti and­legum og líkam­legum pyntingum.

„Hann var eyðilagður andlega. Algjörlega eyðilagður. Þá sagði hann: Við þurfum að flýja land.“

„Hann var hand­tekinn í miðjum tíma þegar hann var að kenna. Hann var pyntaður and­lega í 48 klukku­stundir. Þeir spurðu hann aftur og aftur hvað hann væri að gera, hvort hann ætlaði sér að skapa nýja trú sem væri á móti Íslams­trú. Þeir báðu hann um gögn sem myndu sýna fram á þetta guð­last,“ segir Shokoufa.

„Ég vissi ekki að hann hefði verið hand­tekinn. Daginn eftir komu þeir heim til okkar og brutu sér leið inn. Þeir veittust að mér og kröfðust gagna. Þeir rifu allt út úr bóka­safninu á heimilinu okkar og rifu upp allar skúffur og sneru öllu við til þess að finna ein­hvers konar sönnun um að eigin­maður minn væri svikari. Til allrar hamingju var ekkert að finna heima hjá okkur. Eigin­manni mínum var sleppt úr haldi daginn eftir. Hann var dauð­hræddur. Hann var eyði­lagður and­lega. Al­gjör­lega eyði­lagður. Þá sagði hann: Við þurfum að flýja land.“

„Þá sögðu byltingarverðirnir: Við munum finna þau í Portúgal. Sama hvar þau eru, við munum finna þau.“
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Fundu smyglara og flúðu land

Þá hafi Ardes­hir farið í leið­angur að reyna að finna smyglara. Hann fann mann sem gat komið þeim úr landi til Portúgal. Ekkert annað stóð til boða og á­kvað fjöl­skyldan að leggja leið sína þangað. Þau voru ör­væntingar­full og þurftu bara að komast út úr landi.

„Farið til Íslands, þar verðið þið örugg.“

„Við yfir­gáfum Íran 25. febrúar og héldum því fram að við værum örugg í Portúgal. Þá fengum við skila­boð frá vini okkar sem spurði hvar við værum. Við sögðumst vera í Portúgal en lugum að honum og þóttumst vera í fríi. Hann sagði okkur að byltingar­verðirnir hafi komið heim til okkar með hand­töku­skipun. Þegar þeir áttuðu sig á því að við værum ekki heima þá fóru þeir heim til tengda­for­eldra minna. Tengda­faðir minn er mjög veikur, hann er rúm­liggjandi allan daginn. Tengda­móðir mín er líka líkam­lega veik. Byltingar­verðunum stendur á sama. Þeir voru mjög harka­legir við þau og öskruðu á þau og kröfðust þess að fá að vita hvar við værum. Eina sem þau vissu var að við værum í fríi í Portúgal. Þá sögðu byltingar­verðirnir: Við munum finna þau í Portúgal. Sama hvar þau eru, við munum finna þau.“

Elta svikara yfir landamæri

Sepah er her­deild í Íranska hernum sem var stofnuð eftir ís­lömsku byltinguna á áttunda ára­tugnum. Í þeirri deild eru svo­kallaðir byltingar­verðir sem full­yrða að hlut­verk þeirra sé að vernda íslamska lýð­veldið. Sepah, sem er einnig kallað IRGC (e. Islam­ic Re­volutionary Guard Corps) eru skil­greind sem hryðju­verka­sam­tök af Banda­ríkjunum. Að þeirra mati er Ardes­hir svikari og guð­lastari. Byltingar­verðirnir hafa lýst því yfir að þeir elti svikara yfir landa­mæri.

Fjöl­skyldan áttaði sig á því að þau væru ekki lengur örugg í Portúgal. Þá hafði Ardes­hir aftur sam­band við smyglarann sem sagðist geta komið þeim til Ís­lands í gegnum Þýska­land. „Hann keypti handa okkur flug­miða, fór með okkur á flug­völlinn og sagði: Farið til Ís­lands, þar verðið þið örugg.“

Yfir­völd í Portúgal hafa sam­þykkt að taka við fjöl­skyldunni og verða þau send þangað á grund­velli Dyflinar­reglunnar en það var fyrsti við­komu­staður þeirra eftir að þau flúðu land. Út­lendinga­stofnun tekur ekki til­lit til gagna um hand­töku­skipun á hendur Ardes­hir, eigin­manns Shokoufu, frá Sepah.

Hægt er að skrifa undir undirskriftalista hér til að hvetja stjórnvöld til að hætta við brottvísun fjölskyldunnar.

Athugasemdir