Konu sem sagt var upp störfum hjá Mötuneyti Menntaskólans á Akureyri í nóvember 2021 vegna þess að hún afþakkaði bólusetningu gegn Covid-19 segist þakklát fyrir að málinu sé loks lokið. Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Norðurlands eystra á fimmtudaginn. Málinu lauk með dómsátt en Mötuneytið féllst á að ljúka málinu með því að greiða konunni miska- og skaðabætur.

Konan og eiginmaður hennar segja málið hafa tekið verulega á, bæði andlega og líkamlega og því sé niðurstaðan mikill áfangasigur. Málið hafi legið þungt á fjölskyldunni í rúma þrettán mánuði.

Konan fékk uppsagnarbréf fyrir yfirmanni sínum í lok nóvember 2021 en þar segir: „Ástæða uppsagnar er að ég tel of áhættusamt að hafa óbólusettan einstakling í vinnu á stað eins og mötuneytið er. Er ég þar að hugsa um hag einstaklinga sem eru í okkar umsjá og einnig hag annarra starfsmanna.“

Lét í ljós óánægju sína

Aðdraganda málsins má rekja til utanlandsferðar sem konan fór í haustið 2021. Þegar hún kom í vinnu að loknu fríi spurði framkvæmdastjóri mötuneytisins hvernig hún hefði þurft að haga sér með tilliti til sóttvarna við heimkomu. Konan tjáði honum að hún hefði þurft að vera í fimm daga sóttkví við heimkomu og varð framkvæmdastjóranum ljóst að hún hefði ekki þegið bólusetningu og lét í ljós óánægju sína með það, að því er fram kemur í stefnu lögmanns konunnar.

„Um miðjan nóvember 2021 spurði framkvæmdastjóri stefnda, stefnanda í viðurvist annarra starfsmanna hvort að stefnandi hefði þegið bólusetningu sem hún svaraði neitandi og lét framkvæmdastjórinn þá orð falla um að stefnandi væri í mun meiri hættu á að smitast en þeir sem hefðu þegið bólusetningu. Eftir þetta var öllum samstarfsmönnum stefnanda kunnugt um að hún hefði ekki þegið bólusetningu,“ segir jafnframt í stefnunni.

Konan og eiginmaður hennar segja að eftir að framkvæmdastjóranum hafi verið ljóst að hún hafi verið óbólusett hafi hann lagt hana í einelti. Í bréfi sem sent var til stjórnarformanns félagsins 22. nóvember 2021 er óskað eftir aðgerðum vegna endurtekins eineltis. Af því hafi þó ekki orðið.

Uppsögn í lok nóvember

Þann 29. nóvember barst konunni svo uppsagnarbréfið þar sem ástæðan var sögð vera vegna þess að hún hefði ekki þegið bólusetningu. Lögmaður konunnar mótmælti uppsögninni með bréfi í desember sama ár og svaraði lögmaður mötuneytisins að ef konan væri reiðubúin að fara í PCR próf tvisvar í viku og skila inn neikvæðum niðurstöðum þá væri mötuneytið tilbúið að afturkalla uppsögnina. Lögmaður konunnar benti á að slík beiðni ætti sér ekki stoð í lögum né í kjarasamningum og því var ekki fallist á þessa afarkosti.

Í greinargerð lögmanns mötuneytisins er málavöxtum mótmælt, að því leyti sem lýsingu á málsatvikum konunnar og framkvæmdastjórans kemur ekki saman. Þegar konan hafði starfað hjá mötuneytinu í um hálft ár hafi nýtt afbrigði kórónuveirunnar hafið innreið sína í íslensku samfélagi. Áhrif þess hefðu verið óljós og því full ástæða til að hafa varann á. Framkvæmdastjórinn hafi orðið þess áskynja að konan hafi ekki verið bólusett gegn Covid-19 í kjölfar utanlandsferðar hennar. Framkvæmdastjórinn hafi hins vegar ekki rætt þessi mál við konuna í viðurvist annarra starfsmanna. „Hið rétta er að þessi samskipti fóru fram undir fjögur augu, og urðu aðrir starfsmenn stefnda ekki vitni að samskiptunum.“

Aukin áhætta án bóluefnis

Í kjölfarið hafi framkvæmdastjórinn leitað ráða hjá svæðisstjóra almannavarna á Norðurlandi um hvernig mál konunnar horfði við með tilliti til sóttvarna. „Var það eindregin ráðlegging svæðisstjóra að stefnandi mætti ekki til starfa hjá stefnda nema fyllsta öryggis væri gætt, í ljósi þeirrar áhættu sem því fylgdi, í ljósi þess að stefndi rekur fjölmennan vinnustað þar sem mikil nánd er milli starfsfólks og þeirra sem nýta sér þjónustu stefnda,“ að því er fram kemur í greinargerðinni. Konunni hafi svo verið sagt upp störfum í ljósi þeirrar verulegu auknu áhættu sem fylgdi því að hafa óbólusettan einstakling í vinnu.

Þá segir jafnframt í greinargerð lögmanns mötuneytisins að uppsögn konunnar hafi verið byggð á lögmætum sjónarmiðum. „Það að stefnandi sé almennt andvíg bólusetningum hefur ekkert með starfslok hennar að gera, ólíkt því sem hún heldur sjálf fram, heldur það að sú ákvörðun hennar að neita að undirgangast regluleg próf til að ganga úr skugga um að hún væri ekki smituð af Covid-19 gerði stefnda einfaldlega ótækt að þiggja vinnuframlag frá stefnanda, samkvæmt ráðleggingum frá svæðisstjóra almannavarna á Norðurlandi.“

Fleiri óbólusettir gegn Covid-19

Konan og eiginmaður hennar segja málið snúa að persónubundnu einelti. Framkvæmdastjórinn hafi viðurkennt í dómssal að hann hafi ekki sett bólusetningarkröfur á neinn annan en konuna. Aðspurð hvort hún viti til þess að eitthvað samstarfsfólk hafi verið óbólusett segist konan ekki vita það.

Hins vegar hafi hún fundað með skólameistara Menntaskólans á Akureyri og í því samtali hafi komið fram að einhverjir starfsmenn skólans væru óbólusettir. Þeir kennarar sóttu mötuneytið sem konan vann í og voru að kenna krökkunum sem sóttu sama mötuneyti.

Konan kveðst þakklát fyrir að málinu sé nú loks lokið en það þýði þó ekki að hún gleymi því svo auðveldlega.