Rekaviðardrumba mun ekki lengur reka á íslenskar fjörur árið 2060, samkvæmt nýrri alþjóðlegri rannsókn. Dregið hefur úr magni rekaviðar undanfarin þrjátíu ár, vegna betri nýtingar í Rússlandi og minnkandi hafíss.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í nýjasta hefti af tímaritinu Global and Planetary Change. Vísindamennirnir sem að henni stóðu koma frá háskólum í Tékklandi, Rússlandi, Bretlandi, Sviss og einnig Ólafi Eggertssyni hjá Skógræktinni.

Meðal annars var greindur uppruni og aldur rekaviðar út frá árhringjum drumba sem fundust á Langanesi árið 1989 annars vegar og 2019 hins vegar.

Rekaviðurinn sem hingað kemur er að mestu leyti upprunninn frá svæðinu í kringum Yenesei-fljót um miðbik Síberíu. Mikill meirihluti þess kemur úr skógarhöggi og aðeins um 17 prósent eru tré sem fallið hafa af öðrum orsökum.

Um aldir var rekaviður afar mikilvægur Íslendingum því að tré af þessari stærðargráðu uxu ekki hér. Rekajarðir þóttu verðmætar því timbrið var notað til bygginga húsa og báta.

Betri stýring rekaviðar í Síberíu eftir fall Sovétríkjanna er ein af skýringunum á minna magni rekaviðar undanfarna áratugi. Það tekur rekaviðinn nokkur ár að berast til landsins, allt að þúsund kílómetra leið. Til þess að komast þarf að vera til staðar hafís, sem endist lengur en eitt ár, til að bera viðinn til Íslands. Eftir því sem hafísinn minnkar eru meiri líkur á að rekaviðurinn komist ekki áleiðis heldur sökkvi.

Mynd/Sciencedirect