Trúfélög Íbúar og gestir í miðbæ Reykjavíkur hafa líklega orðið varir við óvenjulegan klukknahljóm sem barst frá Hallgrímskirkju nýlega. Ein klukkan í klukknaspilinu bilaði og til að finna hana þurfti að prófa allar klukkurnar í spilinu, þær eru 29 talsins.

Þann 13. ágúst síðastliðinn ómuðu svo jólalög frá turni kirkjunnar og brá þá mörgum við að heyra til að mynda Heims um ból á miðju sumri. Sigríður Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju, segir að jólalögin hafi verið spiluð fyrir mistök.

„Þetta með jólalögin var einhver bilun sem var löguð mjög fljótt. Klukknastýringin fékk sjálfstæðan vilja í einn dag,“ segir Sigríður.

Sigríður Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Erna Karlsdóttir, kirkjuvörður í Hallgrímskirkju, segir að það hafi einstaka sinnum komið fyrir að rangur klukknahljómur sé spilaður á kirkjuklukkunum. „Það hefur gerst fyrir mistök, jafnvel að einhver hafi bara rekist í vitlausan takka,“ segir hún.

„Stundum áttum við okkur ekki á þessu þegar við erum inni í kirkjunni svo annað hvort fáum við símtal eða eitthvert okkar fer út og bara: Jesús, það eru sálmar í gangi,“ bætir Erla við.

Í Hallgrímskirkju eru þrjár stórar kirkjuklukkur og auk þeirra klukkuspil sem samanstendur af 29 klukkum. Klukkuspilið er þannig sett upp að vestan megin eru fjórtán klukkur í tveimur röðum en austan megin eru fimmtán klukkur í tveimur röðum.

Allar klukkurnar eru merktar með nafni gefanda eða þess sem þær voru gefnar til minningar um. Stærsta klukkan heitir Hallgrímur, eftir séra Hallgrími Péturssyni, miðklukkan heitir Guðríður, eftir eiginkonu Hallgríms, og sú minnsta heitir Steinunn eftir dóttur þeirra hjóna sem lést ung.

Á virkum dögum hringja kirkjuklukkurnar á korters fresti frá klukkan níu á morgnana til klukkan níu á kvöldin. „Sumir eru rosalega pirraðir á þessu og það hefur alveg rignt yfir okkur póstum frá fólki sem finnst lætin í klukkunum mikið rask,“ segir Erna.

„Það hefur verið reynt að stilla þessu í hóf eftir því og á laugardögum hringja klukkurnar frá hádegi og á sunnudögum frá messunni klukkan 11,“ bætir Erna við.

Klukkurnar eru merktar með nafni gefanda, þessi er frá Grímseyingum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari