„Við virkjuðum lokunar­skipu­lag klukkan sjö í morgun, það eru lokanir á Suður­strandar­vegi Grindar­víkur­meginn og síðan við Vig­dísar­vallar­veg að austan­verðu. Þar eru allir öku­menn teknir tali og svo snúum við þeim sem ætla upp á gos­s­lóðir,“ segir Gunnar Schram, yfir­lög­reglu­þjónn á Suður­nesjum.

Í dag tók lög­reglu­stjórinn á Suður­nesjum á­kvörðun um að á­­fram verði lokað inn á gos­­stöðvarnar í dag vegna veður­að­­stæðna, en veður­út­lit fyrir svæðið er ekki gott fyrir daginn í dag.

Gunnar segir að lög­reglan hafi aukið eftir­lit á gos­s­lóðum. „Við erum með virkt eftir­lit núna með bíla­stæðum upp að göngu­leiðunum milli þessa lokunar­pósta. Það fólk sem hefur ein­hvern veginn komist í gegn og ætlar sér samt að fara, það er bara rekið burt harðri hendi,“ segir Gunnar.

Eld­gosið hefur laðað mikið af er­lendum ferða­mönnum til sín, en Gunnar segir að unnið sé að því að finna leiðir til þess að miðla upp­lýsingum um gosið til þeirra.

„Maður talar ekki ís­lensku á gos­stöðvunum nema við björgunar­sveitar­menn, þetta eru nánast al­farið er­lendir ferða­menn. Upp­lýsinga­miðlun til ferða­manna er í vinnslu hjá al­manna­varna­deildinni og var rædd á sam­ráðs­fundi sem við héldum í morgun. Þar var rætt hvernig við getum enn betur náð til þessa fólks og þessa hóps,“ segir Gunnar.

Gunnar segir fólk stundum segja ósatt um ferðir sínar til þess að komast upp að gos­s­lóðum.

„En svo er það bara eins og við sáum í gær og eins og við erum að sjá núna, fólk lætur sér ekki segjast. Verk­efnið okkar núna á milli þessara lokana er fólk sem lýgur um á­stæður til þess að komast í gegn og segist ekki ætla upp að gos­stöðvunum. Þannig við erum með virkt eftir­lit á milli lokananna og rekum fólk í burtu hörðum höndum ef það gerir sig lík­legt til að leggja bílum upp að göngu­leiðum og ætli sér þangað upp,“ segir Gunnar.

Fjöldi fólkis lagði leið sína að eldgosinu í gær þrátt fyrir lokanir.
Fréttablaðið/Anton Brink